Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vandi einkarekinna skóla mögulega til nefndar

19.12.2018 - 14:45
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Í nýlegu samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám er kveðið á um að samráðsnefnd fylgist með framkvæmd þess og fjalli um álitaefni sem tengist því. Vandi einkarekinna tónlistarskóla gæti flokkast sem slíkt álitaefni. Þetta kemur fram í svari menntamálaráðuneytis við fyrirspurn fréttastofu.

Fréttastofa greindi frá því á dögunum að Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz, óttist að þurfa að loka skólanum þar sem fjárframlög ríkisins undanfarin ár hafi ekki fylgt launaþróun tónlistarkennara.

Nýlega var kynnt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám sem ætlað er að jafna tækifæri til tónlistarnáms á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi. Gunnar sagði í fréttinni að samkomulagið myndi ekki leysa vanda einkareknu skólanna. Í svari ráðuneytisins segir að nú sé unnið að skipun fyrrnefndar samráðsnefndar. Í henni sitja fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. „Vandi einkarekinna tónlistarskóla, sem verið hefur til umfjöllunar á RÚV, gæti vel flokkast sem slíkt álitaefni,“ segir í svari ráðuneytisins.

Ráðuneytið áréttar í svari sínu að tónlistarkennsla á grunn-, mið- og framhaldsstigi heyri undir sveitarfélögin. Aðkoma ríkisins hafi frá árinu 2011 verið á grundvelli hliðstæðs samkomulags og undirritað var á dögunum. Samkomulagið feli í sér fjárstuðning ríkisins við lögákveðin verkefni sveitarfélaganna, til samræmis við lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Viðunandi fjármögnun tónlistarnáms sé á ábyrgð sveitarfélaganna, segir í svari ráðuneytisins.

Einkareknu tónlistarskólarnir fengu aukafjárveitingu árið 2015 eftir að samkomulag náðist á milli þáverandi ríkisstjórnar, Reykjavíkurborgar og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að bregðast við því að kennslukostnaður nokkurra tónlistarskóla var hærri en ráðgert hefði verið.