Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vanbúnir bílar hindruðu sjúkraflutninga

11.03.2015 - 01:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
357 björgunarsveitarmenn úr ríflega 30 sveitum sinntu hátt í 80 útköllum í óveðrinu sem gekk yfir vestanvert landið í gær, mánudag. Fjöldi vanbúinna bifreiða stóð fastur í ófærðinni og hindraði för sjúkrabifreiða jafnt sem annarra.

Að sögn Guðbrands Arnar Arnarsonar, verkifnisstjóra hjá Landsbjörgu, gátu síðustu björgunarsveitarmennirnir snúið aftur til síns heima laust upp úr miðnætti, en þá var búið að opna allar helstu leiðir og heiðar nema Hellisheiði og flestir strandaglópar komnir áleiðis til síns heima eftir að hafa fengið skjól í þjónustumiðstöðvum við Þingvelli, Laugarvatn, Gullfoss og Geysi þar til þeir komust leiðar sinnar á ellefta og tólfta tímanum í gærkvöldi. 

Nokkuð var um árekstra og slys á fólki, sem kölluðu á sjúkraflutninga, þótt enginn hafi slasast lífshættulega. Björgunarsveitir þurftu ýmist að greiða för sjúkrabíla til og frá slysstað eða hreinlega flytja hina slösuðu að sjúkrabílunum, sem komust hvorki lönd né strönd vegna þess að pikkfastir smábílar voru í veginum.

Umferð var mikil þrátt fyrir slæma veðurspá og aðvaranir frá Veðurstofu. Á bilinu fjögur til fimm hundruð manns lentu í vandræðum á Gullna hringnum einum, einkum og sér í lagi vegna smábíla sem komust hvergi í fannferginu, . 

„Vanbúinn bíll getur verið á vetrardekkjum, vanbúinn bíll er til dæmis bara lítill bíll sem situr fastur á kviðnum þegar snjórinn er jafnmikill og hann er núna. Þannig að ég vil bara fullyrða að litlir bílar eiga ekkert erindi upp á heiðar þegar veður er eins og spáð var í dag," sagði Guðbrandur. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV