Valkostagreining: Leið R vænlegust

12.12.2018 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík - RÚV
Niðurstaða valkostagreiningar á leiðarvali um Gufudalssveit er að tillaga norsku verkfræðistofunnar Multiconsult sé vænlegasti kosturinn. Fyrirtækið ViaPlan vann greininguna sem verður kynnt fyrir íbúum Reykhólahrepps á næstu viku.

Tillaga Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun ráðlagði Reykhólahreppi að fá valkostagreiningu á leiðarvali Vestfjarðavegar 60 um Gufudalssveit til að draga upp skýra, aðgengilega og hlutlæga mynd af valkostunum. Reykhólahreppur fékk ViaPlan, sem er ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf, rannsóknum og gagnaöflun á sviði samgöngumála, til verkefnisins og vann Lilja Guðríður Karlsdóttir greininguna. ViaPlan hefur nú skilað inn greiningu á 90 blaðsíðum.

Leið R vænlegust

Valkostagreiningin fólst í mati á tæknilegum, skipulagslegum, félagslegum og hagrænum þáttum og er það mat ViaPlan að leið R um Reykhóla með þverun yfir Þorskafjörð, sem er tillaga norsku verkfræðistofunnar Multiconsult, sé vænlegasti kosturinn. Leið A3, sem er útfærsla Vegagerðarinnar á sömu leið, kemur þar á eftir, svo leið um Teigsskóg og leið D2 með jarðgöngum er talinn sísti kosturinn.  

Telja Reykhólaveg mega bíða

Vegagerðin gerði frumathugun á tillögu Multiconsult síðla sumars en ViaPlan gagnrýnir að Vegagerðin gerði ekki frumathugun á leið R heldur útfærði hana sem leið A3, með uppbyggingu á Reykhólavegi sem gerir valkostinn mun dýrari. ViaPlan telur að leið R ekki háða uppbyggingu á Reykhólavegi heldur megi sá kafli bíða, enda sé vegurinn sambærilegur mörgum öðrum vegköflum á landinu. ViaPlan segir ógerning að bera saman kostnaðaráætlanir Multiconsult og Vegagerðarinnar og það sé verkefninu ekki til framdráttar.

Í valkostagreiningunni kemur fram að umferðaröryggi er talið einna best á leiðum R og A3 og að með þeim styttist skólabílaaksturinn mest. Þá henti þær betur fyrir almenningssamgöngur og þéttbýlið á Reykhólum.

Kallað eftir breyttum verkferlum Vegagerðarinnar

Ljóst er að verði leiðir A3 og R fyrir valinu þá tekur leyfisveitingarferlið lengri tíma en ef leið Þ-H verður fyrir valinu.. Þá er ljóst að allar leiðir gætu verið kærðar. Í valkostagreiningunni kemur fram að ljóst sé að krafa um ódýrustu leiðina og krafa um náttúruvernd stangast á og er kallað eftir því að Vegagerðin breyti verkferlum sínum þannig að unnin sé félagshagfræðileg greining á verkefnum, eins og er gert í nágrannalöndum okkar. Með því sé hægt að taka betur tillit til ófjárhagslegra þátta og útiloka leiðarvalkosti fyrr í ferlinu.

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir að næstu skref felist í að kynna greininguna fyrir íbúum, líklega í næstu viku. Hann býst við því að sveitarstjórn taki ákvörðun um leiðarval á fyrsta fundi sínum á nýju ári.

Valkostagreininguna má nálgast í heild sinni neðst til hægri á þessari síðu.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi