Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Valitor, leynd og ógagnsæi

05.12.2017 - 10:51
Mynd: Rúv / Rúv
Þrátt fyrir fyrirheit um gagnsæi í sölu eigna bankanna hefur reyndin hvað eftir annað orðið öll önnur. Sala Borgunar og hluta í Bakkavör sköpuðu nýjum eigendum mikinn hagnað sem ríkið varð þá af. Í vor sagði Spegillinn frá að erlendu sjóðirnir sem eru stærstu eigendur Arion banka ættu leyndan kauprétt á Valitor. Væntanlegt útboð á eignarhlutum í Arion hefur endurvakið þessi áform.

Ógagnsæjar eignasölur þrátt fyrir góð fyrirheit

Eignasala bankanna eftir hrun hefur hvað eftir annað orðið tilefni harðrar gagnrýni meðal annars af því yfirlýst viðleitni um opið og gagnsætt ferli hefur marg brugðist. Í hverri sölu fyrir sig eru alltaf einhverjar eðlilegar skýringar á bæði kaupendum og verði. En á heildina litið er þetta samfelld saga um útvalda kaupendur sem hagnast verulega, jafnvel gífurlega eins og Borgunarsalan úr Landsbankanum og salan á Bakkavör úr Arion eru sláandi dæmi um. Bankastjóri og stjórn Landsbankans sögðu af sér vegna Borgunarsölunnar.

Hræringar í Arion

Núna eru athyglisverðar hræringar í kringum Arion. Einn stjórnarmaður hefur verið rekinn – auðvitað ekki orðað þannig en sú er raunin nú þegar Guðrún Johnsen hættir þar. Tildrögin eru óvanaleg, nú virðist liggja á, kallaður saman hluthafafundur til að gera breytingar á stjórn, venjulega aðeins gert á aðalfundi.

Stærstu eigendur Arion eru Kaupskil, eignarhaldsfélag slitabús Kaupþings, með 57 prósent, ríkið á 13 prósent og svo þrír sjóðir – Taconic, Attestor og Och-Ziff – sem eru líka stórir eigendur Kaupskila. Sjóðirnir ásamt Goldman Sachs eiga ríflega 29 prósent í Arion.

Erlendu sjóðirnir með kauprétt á Valitor

Spegillinn upplýsti í vor að áður en hlutur í Arion færi á markað yrðu lykileignir teknar út og seldar sérstaklega, til að hámarka verðmæti. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, þannig gæti fengist hærra verð en spurning hvernig það yrði gert. 

Samkvæmt heimildum Spegilsins hafa erlendu sjóðirnir þrír tryggt sér kauprétt á greiðslukortafyrirtækinu Valitor, verðmætasta dótturfélagi Arions. Mögulegt markaðsvirði gæti orðið vel yfir bókfærðu virði. Hugsanleg sala Valitors hafði ekki verið rædd í stjórn Arion í vor þegar Spegillinn flutti fréttir af þessari mögulegu sölu og kauprétturinn farið leynt.

Áætlun um sölu Valitor í vor endurvaktar

Það varð ekkert úr því í vor að koma Valitor í hendur erlendra eigenda bankans. En samkvæmt heimildum Spegilsins er þetta nú aftur á dagskrá. Einn viðmælandi Spegilsins sagðist hafa haldið að þessi áform hefðu algjörlega verið slegin út af borðinu í vor og undraðist að þau væru endurvakin. Nú er rætt að nota hluti í Valitor í arðgreiðslur – nokkuð sem tíðkaðist fyrir hrun þegar þurfti að dreifa eignarhaldi. Trikk til leysa vanda. 

Samþætting gamalla og nýrra söguþráða í Arion

Það fléttast ýmsir þræðir saman í söluhræringum tengdum Arion. Ein kenningin er að lífeyrissjóðum verði boðið að kaupa í bankanum áður en hann fer á markað. Hér er vert að hafa í huga að stærsta hruntap íslensku lífeyrissjóðanna tengdist Kaupþingi og Existu, þessum stærsta hluthafa Kaupþings í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona.

Sala Arion á hlutum í Bakkavör

Fyrir einu og hálfu ári keypti Bauhaus hlut Arion banka í Bakkavör en fyrirtækið var þá metið á 300 milljónir punda. Eftir rykkjótt ferli fór 25 prósent Bakkavarar á markað í Bretlandi. Verðmatið á fyrirtækinu var þá um milljarður punda, það er þrefalt matið í sölu Arion fyrir aðeins átján mánuðum.

En aftur að væntanlegu útboði Arions, líklega 36 prósent hluta í bankanum til sölu. Einn viðmælandi Spegilsins benti á að eigendur Bakkavarar sætu nú með fulla vasa fjár, spurning hvort bræðurnir stefni á að ná aftur ítökum í Arion líkt og þeir hafa þegar gert í Bakkavör. 

Arion þarf ekki að eina Valitor en ekki sama hvernig er selt

Það er ekkert náttúrulögmál að Arion banki eigi Valitor. Spurningin er aðeins hvort Valitor salan verði eins og salan á Borgun og Bakkavör, svo slæm dæmi séu tekin eða hvort dagar gagnsæis renni loksins upp. Eins og áður segir er Valitor gott félag í góðum rekstri. Hið athyglisverða er að félagið hefur nú, samkvæmt heimildum Spegilsins, greitt upp lán við Arion fyrir gjalddaga. Þannig er staðan nú ekki alveg eins góð og ella, spurning hvort þetta er liður í góðum rekstri eða gert til að þrýsta verðmati Valitor aðeins niður nú þegar verðmiðinn gæti farið að skipta máli.

Leiðinda tortryggni eða ekki að ástæðulausu

Erlendur fjárfestir hafði eitt sinn orð á því við tíðindamann Spegilsins að það ríkti leiðinda tortryggni á Íslandi í garð bankanna. Hið dapurlega er að eignasölur bankanna eftir hrun hafa gefið ærin tilefni til tortryggni í skugga ógagnsæis og leyndar.