Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Valdaafsal eða alls kyns rangfærslur

18.11.2018 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Statnett
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist óttast að innleiðing þriðja orkupakkans myndi færa ákvarðanatöku um sæstreng úr höndum Íslendinga. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir umræðu um pakkann fulla af rangfærslum og ekkert til í fullyrðingum um valdaafsal.

Rætt var um þriðja orkupakka Evrópusambandsins í Silfrinu í morgun. Sigmundur Davíð sagði að grundvallarbreyting felist í innleiðingu þriðja orkupakkans, með því að evrópskri stofnun verði veitt yfirþjóðlegt vald á Íslandi. Þarna sé um að ræða ACER sem geti samkvæmt stofnsáttmála tekið bindandi ákvarðanir sem einstaka ríki verði að undirgangast.

Sigmundur sagðist hafa áhyggjur af því að til dæmis ákvörðun um lagningu sæstrengs væri ekki lengur í höndum Íslendinga. „Í öllu falli hef ég áhyggjur af því að ef þetta væri gengið í gegn og þingið að miklu leyti, og þar með almenningur, búið að afsala sér yfirráðum að miklu leyti yfir þessum máli þá geti einhverjir komið sem lýsa áhuga á að ráðast í slíka tengingu og þá væri það ekki undir okkur komið hvort ætti að samþykkja þau áform eða ekki,“ sagði Sigmundur Davíð. Þetta snerist um valdaafsal og fullveldi landsins.

ACER ráði engu hérlendis

„Þetta er eiginlega bara ekki rétt í grundvallaratriðum það sem Sigmundur er að segja hérna,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Þannig hefði ACER stofnunin sem Sigmundur vísaði til enga aðkomu á Íslandi, og réði engu um hvort sæstrengur yrði lagður. Hún sagði að mesta andstaðan við þriðja orkupakkann væri úr þeim þremur flokkum sem hefðu staðið gegn stjórnarskrárákvæðum um að auðlindirnar væru sameign þjóðarinnar. „Það er einhver holur hljómur þarna sem ég átta mig engan veginn á.“

Spurningum um undanþágur ósvarað

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði nokkrum spurningum svarað áður en hægt væri að taka endanlega afstöðu til þriðja orkupakkans. „Ég vil fá svör við því hvaða undanþágur er hugsanlega hægt að fá og getum við fengið fleiri og getum við fengið undanþágu frá honum í heild sinni?“ Hann sagðist líka vilja svör við því hvaða áhrif það hefði á EES-samninginn ef Íslendingar höfnuðu því að taka upp þriðja orkupakkann.

Umræðan uppfull af rangfærslum

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði umræðuna um þriðja orkupakkann uppfulla af alls kyns rangfærslun. „Ég verð bara að segja að þessi umræða er með ólíkindum. Hún er bæði full af rangfærslum um hvað nákvæmlega felst í þessum þriðja orkupakka. Hér er verið að tala um fullveldi landsins. Því miður finnst mér það ekki sómi íslenskrar stjórnmálaumræðu að blanda saman umræðu um fullveldi. Annað hvort erum við með fullveldi eða ekki. Við erum ekki að fara að afsala okkur fullveldi með því að taka upp þriðja orkupakkann.“