Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vakna í raun klukkan hálf sex en ekki sjö

24.11.2017 - 15:04
Mynd: burst.shopify.com / burst.shopify.com
Björg Þorleifsdóttir, lektor við læknadeild, segir þeir sem vakna klukkan sjö á morgnana séu í raun að vakna klukkan hálf sex miðað við líkamsklukkuna. Hún situr í nýstofnuðum starfshópi heilbrigðisráðherra um klukkuna. Hún segir að flestir aðlagist staðartíma og þar skipti birtan sköpum.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra skipaði starfshópinn á dögunum. Starfshópurinn hefur það verkefni að skoða hvort seinka eigi klukkunni hér á landi svo hún verði í meira samræmi við líkamsklukkuna.  Rætt var við Björgu í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Birta eigi stóran þátt í að stilla líkamsklukkuna 

Björg segir að þeir sem vakna klukkan átta á morgnana séu í raun að vakna klukkan hálf sex miðað við líkamsklukkuna. „Það verður að geta þess að langflestir aðlagast staðartíma. Lífklukkan okkar er þeim eiginleikum gædd að hún gengur í takt 24 klukkustundir, nokkurn veginn, en við þurfum ákveðna þætti til að stilla okkur af til þess að segja okkur hvenær nóttin er að koma og hvenær dagur síðan rís." Birtan eigi þar stærstan þátt. „Þegar við höfum ekki þessi réttu merki eru líkurnar á því að við náum ekki að stilla okkur af miklu meiri."

Björg segir líkur á því að yngra fólk eigi erfiðara með að stilla líkamsklukkuna. „Vegna þess að við kynþroska verða breytingar á hormónum og það virðist hafa áhrif á gang líkamsklukkunnar, það er að segja að [gangur líkamsklukkunnar] verði ívið lengri en 24 klukkustundir, og þar af leiðandi höfum við tilhneigingu alltaf til þess að seinka okkur eilítið, fara alltaf seinna að sofa og vakna þar af leiðandi seinna ef við ætlum að ná fullum svefni."

Björg segir að eftir því sem fólk verður eldra hafi fólk tilhneigingu til að fara fyrr að sofa og vakni því fyrr og leggi sig líka á daginn. 

Hættulegt að sofa of lítið 

„Of lítill svefn er í raun og veru skilgreindur hættulegur fari hann undir sex klukkustundir. Þá sýna rannsóknir að það sé ávísun á ýmsa kvilla. Þá eru þar taldir margir af þessum lífstílskvillum sem við tölum svo mikið um; offitu, sykursýki, hjarta-og æðasjúkdómar og svo framvegis," segir Björg aðspurð um afleiðingar þess að sofa ekki samkvæmt líkamsklukkunni. 

Björg segir að starfshópurinn hafi ekki hist og því hafi engar línur verið lagðar. Hún er segir að þau rök ekki halda sem færð voru fyrir því að festa klukkuna hér á landi á sumartíma árið 1968. „Ástæðan fyrir því, segja þeir að hafi verið sú fyrst og fremst, og þau rök finnst mér harla lítið haldbær, að við hefðum haft sumartíma meirihlutann af þeim tíma árin á undan vegna þess að þann tíma sem við höfðum sumartíma var þrír fimmta af árinu. Í öðru lagi var það til þess að hafa fleiri klukkustundir sem við gætum haft símasamband við Evrópu á vinnutíma." Þær forsendur séu mjög breyttar enda hægt að hafa samband við fólk hvenær sem er sólarhringsins.  

Aukin birta síðdegis 

Björg segir að rökin á sínum tíma fyrir því að festa klukkuna á sumartíma hafi verið að flestum þætti gott að hafa þessa auka birtu síðdegis. „En á móti kemur, og það er sagt að birtutíminn hafi aukist við þetta á vökutíma en vökutíminn er ekkert skilgreindur. Birtutíminn eykst líka að morgni, ekki satt, og ég held að ég geti nánast fullyrt að svona án mikilla ýkja að þessi birta sem við öll gleðjumst svo yfir í janúar, þegar við förum að sjá skína af degi og komum glöð í vinnuna og segjum: Tókuð þið eftir hvað það er orðið bjart? Þessi birta myndi líkelga vera allan veturinn klukkan átta til níu." 

Þá fengist meiri birta á morgnana og fólk ætti auðveldara með að stilla af líkamsklukkuna. „Nákvæmlega því það er birtan sem hefur áhrif á þetta innbyggða kerfi okkar og þessa hormónaframleiðslu, melatónínframleiðslu, sem miðlar okkur þeim upplýsingum að það sé nótt."

Fólk móttækilegra fyrir heilsufarsrökum 

Björg kveðst sannfærð um að fólk sé orðið móttækilegra fyrir heilsufarsrökum í umræðu um þessi mál. Áður hafi lýðfræðilegu rökin ekki verið fyrir hendi en séu rauði þráðurinn nú.  „Það eru fleiri rannsóknir sem sýna mikilvægi þess að það sé samræmi milli innri klukku og ytri klukkunnar. Það er kannski þorri fólks sem nær að stilla sig en er þá alltaf að taka mið af öðrum tímamerkjum heldur en birtunni og þetta er alltaf ákveðin togstreita í líkamanum að hafa samstillingu þarna. En það er fullt af fólki líklega úti í þjóðfélaginu sem ekki nær að stilla sig og er þá alltaf að berjast við þetta. Getur ekki farið að sofa snemma, fer að sofa seint en verður að vakna til vinnu klukkan sjö, átta og svefntíminn styttist."

Fréttin hefur verið leiðrétt. Þar sem áður stóð klukkan átta stendur nú klukkan sjö. 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV