Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vafi hvort hægt sé að slökkva á staðsetningu

Mynd:  / 
Flest fólk er meðvitað um að snjalltæki kortleggja ferðir okkar. Theodór Ragnar Gíslason, tæknistjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis segir að það sé þó algengara en fólk gerir sér grein fyrir og að jafnvel sé ekki hægt að slökkva á staðsetningaþjón síma. Forstjóri Persónuverndar segir að tæknin sé orðin afburða góð.

Hafi fólk kveikt á staðsetningu er lítið mál að finna út hvenær og hvernig það kom á ákveðna staði. Og hvað það var lengi þar. Mörg öpp safna þessum upplýsingum og framselja ýmissa fyrirtækja, ef ekki er lokað fyrir staðsetningarþjóninn í símanum.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar segir að of fáir geri sér grein fyrir því. „Það sem er að gerast í þessum staðsetningagögnum er að nákvæmnin og geta tækninnar til að finna út hvar fólk er, er að verða afburða góð. Hún er það góð að það er hægt að finna út hvar fólk er í byggingu. Það hverfur ekki í fjöldann heldur er það persónugreinanlegt,“ segir Helga.

En það eru ekki bara símarnir sem senda þessar persónuupplýsingar áfram heldur líka önnur nettengd tæki. Netöryggisfyrirtækið Syndis hefur skoðað öryggi fólks í þessu samhengi. „Það eru hlutir að senda staðsetningarupplýsingar allt í kringum okkur. Þetta kom okkur ekki á óvart en það er miklu meira um það en fólk gerir sér grein fyrir. Það tengir þetta bara við símana sína. Þeir fá staðsetningarupplýsingar nema slökkt sé sérstaklega á því. Jafnvel þá er smá vafi um hvort það sé raunverulega hægt,“ segir Theodór Ragnar Gíslason, tæknistjóri Syndis.

„Þetta er allt í kringum okkur. Stundum erum við með þetta á okkur, eins og úrin fyrir börn. Sem geta verið kannski, ekki alveg örugg,“ segir Theodór jafnframt.

„Það er allt lífið undir. Fólk þarf að átta sig á því að tæknin getur verið góð en við þurfum að átta okkur á virkni hennar og hversu miklar persónuupplýsingar það er að gefa. Það er komin formleg kvörtun í Noregi til norsku persónuverndarstofnuarninnar út af því hvernig Google fylgist með norskum ríkisborgurum. Það má bara gefa sér að það sama sé að gerast hér. Við erum með mál sem eru í skoðun. Og varða eitthva af þessum stóru nöfnum sem eru þekkt í heiminum,“ segir Helga jafnframt.