Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vafasamar fréttir áberandi í Svíþjóð

13.09.2018 - 22:12
Þriðjungur frétta sem birtar voru í aðdraganda kosninganna í Svíþjóð hefur verið flokkaður sem ruslfréttir þar sem ekki var getið heimilda. Þetta er á meðal þess kom fram á fundi um falsfréttir í Norræna húsinu í dag, þar sem sérstök áhersla var lögð á áróður sem rekja má til stjórnvalda í Rússlandi.

Yfirskrift fundarins var Falsfréttir, fjölmiðlar og lýðræði. Aðalfyrirlesarinn var Giles Portman, sem er yfirmaður vinnuhóps á vegum ESB. Hópurinn var stofnaður árið 2015 til þess að bregðast við vaxandi áhyggjum sambandsins af rangfærslum sem dreift er vísvitandi til þess að hafa áhrif á umræðu og skapa glundroða.

„Um liðna helgi voru haldnar þingkosningar í Svíþjóð og í Oxford-háskóla var gerð rannsókn á kosningabaráttunni. Þar kom enn og aftur í ljós að þriðjungur frétta í aðdraganda kosninganna í Svíþjóð var ruslfréttir, samkvæmt skilgreiningu Oxford-háskóla, ekki réttmætar fréttir,“ segir Portman.

Mynd með færslu
Giles Portman, yfirmaður East Statcom Taskforce. Mynd: RÚV

 

Þó tók hann dæmi um herferð sem beindist sérstaklega gegn ESB. „Eitt af því sem við sjáum skjóta upp kollinum æ ofan í æ er að ESB hafi áform um að lögleiða barnagirnd,“ segir hann.

Til að mynda fóru þessi skilaboð á flug í Serbíu nýlega, þar sem fullyrt var að barnaníð yrði nú hluti af baráttu ESB fyrir réttindum hinsegin fólks. Portman staðhæfði að þessu tryðu margir, aðallega í austurhluta Evrópu. Portman sagði að áhrifaríkustu rangfærslurnar og áróðurinn snerti málefni sem væru í brennidepli hverju sinni. 

„Þið hafið kannski heyrt um Lisu-málið í Þýskalandi, sem var frétt um að ungri stúlku af rússneskum uppruna hefði verið rænt og nauðgað af flóttamönnum. Þetta var ekki satt en það varð til þess tólf þúsund manns mótmæltu á götum Þýskalands vegna glæps sem hafði ekki verið framinn.“

Eftir fyrirlesturinn voru pallborðsumræður og voru þátttakendur sammála um það, að besta leiðin til lengri tíma til að bregðast við falsfréttum og áróðri, væri að bæta fjölmiðlalæsi almennings. Nokkuð sem framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar sagði að ekki væri lögð næg áhersla á hér á landi.