Væntir þess að Miðflokksmenn láti sjá sig

15.01.2019 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segist vænta þess að Miðflokksþingmennirnir Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mæti á fund nefndarinnar í fyrramálið. Á honum verður rætt um skipan sendiherra í framhaldi af ummælum Gunnar Braga á Klausturbarnum í lok nóvember.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa staðfest komu sína. Bein útsending verður frá fundinum

Á upptökum af Klaustri heyrist Gunnar Bragi segja frá því að þegar hann var utanríkisráðherra hafi hann skipað Árna Þór Sigurðsson, þá þingmann Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sem sendiherra um leið og Geir H. Haarde árið 2014, gagngert til að leiða athyglina og umræðuna frá skipun Geirs. Hann segist jafnframt eiga inni greiða hjá Sjálfstæðismönnum fyrir vikið.

Nefndin samþykkti þann 5. desember að tillögu Helgu Völu Helgadóttur nefndarformanns að kalla þá Bjarna, Guðlaug Þór, Sigmund Davíð og Gunnar Braga fyrir nefndina vegna ummæla um fundi þeirra vegna hugsanlegrar sendiherrastöðu fyrir Gunnar Braga.

Fjórmenningarnir voru upphaflega boðaðir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 12. desember en honum var frestað því hvorki Sigmundur Davíð né Gunnar Bragi svörðu fundarboðum nefndarinnar.

Helga Vala vill ekki svara því hvort Sigmundur eða Gunnar Bragi hafi svarað fundarboði nú. „Það er ekki vaninn að fólk sniðgangi fundarboð fastanefnda og ég vona að það verði ekki heldur núna,“ segir Helga Vala í samtali við fréttastofu.

Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð svöruðu hvorugir símtölum fréttastofu vegna málsins.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi