Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vægðarlaus innsýn í líf fíkla

Elín Sif Halldórsdóttir í hlutverki Magneu. - Mynd: Lof mér að falla / Lof mér að falla

Vægðarlaus innsýn í líf fíkla

10.09.2018 - 20:00

Höfundar

Lof mér að falla er krefjandi en áhrifamikil kvikmynd þar sem áhorfandinn sogast hægt og rólega niður í eiturlyfjafenið, að mati Hlínar Agnarsdóttur gagnrýnanda Menningarinnar.

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Baldvin Z hefur gert kvikmynd sem hann byggir á sannsögulegum atburðum úr lífi ungra kvenna sem hafa ánetjast eiturlyfjum. Í myndinni segir hann sögu Magneu sem aðeins fimmtán ára að aldri sogast inn í heim eiturlyfjanna þegar hún kynnist Stellu sem er þremur árum eldri.

Eins og oft áður þegar fólk fellur í gryfju eiturlyfja og áfengis er ekki alltaf nein sjáanleg eða bein ástæða fyrir fíkninni. Magnea virðist eiga gott heimili, foreldrarnir eru að vísu skilin, en hún býr með föður sínum og virðist eiga ágætt samband við hann og henni gengur vel í skóla, er bæði hæfileikarík og falleg. Það er einna helst að skilja að það sé spennandi félagsskapurinn við Stellu og hennar vini og síðar ástarsambandið milli þeirra sem dregur Magneu niður í svaðið.

Raunsæisleg mynd af neyslu

Baldvin Z er bæði leikstjóri og handritshöfundur ásamt Birgi Erni Steinarssyni. Þeir kjósa að draga upp raunsæislega mynd af neyslu stúlknanna og sýna okkur sögu þeirra á tveimur tímalínum eða æviskeiðum. Kvikmyndavélin fylgir þeim á eftir annarsvegar þegar þær eru báðar ungar og virkir fíklar og hinsvegar fimmtán árum síðar þegar önnur þeirra, Stella, hefur verið edrú í átta ár. Þá er Magnea aftur á móti löngu komin á botninn og orðin að úrhraki sem fjölskylda og meðferðaraðilar hafa gefist upp á.

Allt tekst þetta prýðilega, þótt það hafi tekið nokkurn tíma að láta þessi mismunandi æviskeið fléttast saman og mynda eina merkingarbæra heild í kvikmyndinni. En Baldvin Z er ekkert að flýta sér við að sýna okkur þessa sögu. Myndin er löng og jafnframt krefjandi, áhorfandinn sogast hægt og rólega niður í eiturlyfjafenið með þeim Magneu og Stellu og rennur saman við síendurtekna fíknarhegðun þeirra. Kvikmyndavélin dvelur lengi við þögular nærmyndir af andlitum þeirra og líkama.

Það er margt snjallt í frásagnartækni leikstjórans og tökumanns, þannig notfæra þeir sér vandlega æsku stúlknanna, ósnortna fegurð þeirra og ungæðislega útgeislun sem þeir stilla upp á móti ljótleika og hnignun eiturlyfjaheimsins. Þeir sýna okkur líka hvernig öllu hnignar stig af stigi, ekki bara líkamlegu útliti, heldur einnig andlegu og tilfinningalegu atgervi þeirra Magneu og Stellu. Og það er einmitt í þessari umbreytingu frá saklausri fegurð og æsku yfir í úrkynjun ljótleikans sem kvikmyndin virkar best.

Þetta tekst vel með leikkonunum fjórum sem leika þær Magneu og Stellu, þær yngri Elín Sif Halldórsdóttir sem Magnea og Eyrún Björk Jakobsdóttir sem Stella, hafa báðar afar sérstaka útgeislun (eru fótógenískar) og einhvern tælandi þokka sem kemur sér vel í hlutverkunum en undir fögru yfirborðinu sér maður þó alltaf glitta í fíknarkvikuna og eyðilegginguna.

Leikstjórinn leggur ekki endilega mikla áherslu á samtöl eða innihald þeirra hjá stúlkunum eða í þeim félagsskap sem þær rata í enda hverfa samtölin að mestu niður í ,,fokking“ eiturlyfjaræsið þar sem tungumálið flest út og þörfin til að tjá sig hverfist aðeins um að komast yfir næsta skammt af dópi og segja öðrum að ,,fokka“ sér. Það er helst að samtölin lifni í þeim senum þegar við sjáum þær Magneu og Stellu tjá hvor annarri ást sína, á stundum þegar þeim tekst að rífa sig upp úr neyslunni.

Angist og örvænting

Leikkonurnar Kristín Þóra Haraldsdóttir og Lára Jóhanna Jónsdóttir leika Magneu og Stellu þegar þær eru orðnar eldri og eiga ekki í neinum erfiðleikum með að sýna hvernig líf þeirra þróast þegar þær fullorðnast.

Lára Jóhanna sýnir okkur hyldýpissársaukann sem þrátt fyrir meðferðir og edrúmennsku hverfur ekki svo létt úr sálinni. Hún verður holdtekja spurningarinnar ,,þarf ég að deyja ef ég vil ekki lifa“ sem fólk í hennar sporum stendur frammi fyrir, fólkið sem velur það að falla, hvort heldur fyrir eigin hendi eða dópinu. Hún getur hvorki lifað dóplaus né í dópi. Hún finnur ekki hamingjuna, það virðist erfiðara að horfast í augu við óhamingju en dauða og því er aðeins ein útleið. Allt þetta, angistin og örvæntingin liggur undir í nístandi túlkun Láru Jóhönnu.

Kristín Þóra er hnignunin uppmáluð, hin margfallna kona og það er undirstrikað ekki aðeins með leiknum heldur leikgervi, útliti og búningum. Kristín Þóra er hreint út sagt makalaus í hlutverkinu, ein allsherjar hryggðarmynd. Meðal sterkustu atriða í myndinni sýna afbrigðilegt samband hennar við Gísla, snarbilaðan sértrúarmann sem hún kynnist í einni af meðferðum sínum á yngri árum en Víkingur Kristjánsson leikur hann á eftirminnilegan hátt.

Það er stór leikarahópur sem kemur efni myndarinnar til skila, jafnt meðvirkum og ráðalausum foreldrum Magneu í trúðverðugri túlkun Sólveigar Arnarsdóttir og Þorsteins Bachmanns leika, sem og brengluðum partýheimi fíklanna, afkimanum þar sem ljótir karlar halda ungum dópuðum stúlkum í gíslingu með ofbeldi og vændi. Að öllum öðrum leikurum ólöstuðum verður hér að minnast á frammistöðu Guðjóns Davíðs Karlssonar sem er líkastur djöflinum sjálfum í sínu hlutverki.

Örlög öðrum til varnaðar

Lof mér að falla (svolítið skrítinn titill) er áhrifamikil mynd, ekki aðeins um eiturlyfjafíkn og þann heim sem allt of margt ungt fólk sogast inn í og fellur fyrir heldur um tómleikann í lífi sumra, tilgangsleysi og skortinn á sannri lífsfyllingu. Allt þetta endurspeglast í áferð myndarinnar, yfir henni liggur einhver slikja af merkingarleysi neyslunnar sem kjarnast best í þeim Magneu og Stellu sem vilja losna við veruleikann og lífið með aðstoð eiturlyfjanna en hljóta að falla að lokum.

Örlög þeirra eru vissulega tragísk en um leið eru þau öðrum til varnaðar. Myndin ætti að höfða sterkt til unga fólksins á okkar dögum sem verður æ oftar vitni að ótímabærum dauða jafnaldra í nánasta umhverfi sínu, dauða sem hlýst af eiturlyfjaneyslu. Ungi maðurinn sem fór með mér í bíó var að minnsta kosti í léttu áfalli eftir áhorfið og kom varla upp orði í bílnum á leiðinni heim.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Vona að myndin opni augu fólks