Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vaðlaheiðargöng mistök eða gæfuspor?

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Í kjördæmaþætti á Rás 2 með fulltrúum flokkanna sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi var meðal annars rætt um hvort rétt hafi verið að ráðast í lagningu Vaðlaheiðarganga. Ýmis önnur mál voru rædd. Hvernig ætti að afla tekna til að auka framlög til heilbrigðismála og menntamála, svo eitthvað sé nefnt.

Steingrímur J. Sigfússon, oddviti VG í kjördæminu, sagði að í sínum huga væru engar efasemdir um að rétt hafi verið að ráðast í Vaðlaheiðargöng.

„Þau eiga eftir að gegna lykilhlutverk í samgöngumálum og mun stækka atvinnu- og þjónustusvæði kjördæmisins. Þau munu færa byggðarlög saman og auka öryggi og aðgang fólks að heilbrigðisþjónustu,“ sagði Steingrímur.

Benedikt Jóhannesson, oddviti Viðreisnar segir að göngin eigi eftir að verða mikil bót.

„Þetta breytir eiginlega Eyjafirðinum og Þingeyjarsýslum í eitt atvinnusvæði sem  mun hafa mikil félagsleg áhrif í framtíðinni,“ segir Benedikt

Þorsteinn Bergsson, efsti maður á lista Þjóðfylkingar  segir hins vegar að göngin hafi verið mistök. Meðan ákveðið var að ráðast í þessi ósköp þá þurfti ekki bara ein brú á Skjálfandafljót. Það þurfi að útrýma mörg hundruð kílómetrum af malarvegum í kjördæminu og breikka einbreiðar brýr.

„Allt þetta var sett í salt vegna þessarar vondu hugmyndar og verulega vondu stjórnsýslu,“ segir Þorsteinn.

„Ég held að þetta hafi verið mjög mikilvæg framkvæmd fyrir samfélagið hér á svæðinu segir Albertína Friðbjörg Elíasdóttir sem skipar annað sæti á lista Samfylkingarinnar. Hún er að vestan og sagðist þekkja vel hver áhrif  jarðganga eru á samfélagið.  

 Anna Kolbrún Árnadóttir, sem skipar annað sæti á lista Miðflokksins, benti á að þegar ráðist var í Hvalfjarðargöng hafi umferðin um Hvalfjörð verið svipuð og hún er nú um Víkurskarð.

„Það má líka segja það að sú áætlun sem var gerð og farið var fram úr að það sé kominn tími til að gera ráð fyrir þessu óvissuþáttum. Allt venjulegt heimilisbókhald gerir það,“ segir Anna Kolbrún.

Njáll Trausti Friðbertsson, sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, sagði að þetta væri risaverkefni sem ætti eftir að færa mikla gæfu fyrir svæðið og stuðla að landshlutatengdum hagvexti næstu áratugina.

Halldór Gunnarsson, oddviti Flokks fólksins sagði að þetta væri óskaplega dýr framkvæmd. Miðað við framúrkeyrslu  þá hljóti að koma fram sú spurning hvort þetta hafi verið rannsakað nægilega vel í upphafi. Hann spurði líka hvort kannað hefði verið nægilega hvort hægt hefði verið að lagfæra veginn yfir Víkurskarð.

" Við þurfum ekki að stökkva út í svona framkvæmdir að mínu mati með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem fékkst,“ sagði Halldór.

Þórunn Egilsdóttir, oddviti framsóknarmanna, sagðist engar efasemdir hafa um Vaðlaheiðargöng.

„Í  raun er ég þeirra skoðunar að við eigum alltaf að vera leggja göng vegna þess að göng eru mikilvæg. Þau auka öryggi og lífsgæði,“ sagði Þórunn.

Arngrímur Viðar Ásgeirsson, oddviti Bjartrar framtíðar, sagði a öll göngin í kjördæminu ættu eftir að koma að góðum notum. Hann hafði  hins vegar áhyggjur af ástandi vega á Austurlandi og af veginum að sinni heimabyggð Borgarfirði eystri.
 
„Það hefur komið fram hugmyndir um að friða veginn vegna þess að það er búið að hundsa hann í fjárlögum í um 15 ár,“ sagði Arngrímur Viðar.

Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata, sagði á að hann hefði unnið við lagningu vegarins yfir Víkurskarð og að hann ætti ekki efir að sakna hans þegar göngin kæmust í gagnið.

„Við þurfum að leggja áherslu á að bæta vegi til þéttbýlisstaða sem eru í þeirri stöðu að hafa ekki fengið bundið slitlag árið 2017. Það er náttúrulega algjörlega til háborinnar skammar,“ sagði Einar.

Hlýða má þáttinn í Norðausturkjördæmi í spilaranum hér að ofan.

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV