Vaðlaheiðargöng: „Ásættanleg áhætta eða ekki?“

14.04.2017 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Útlit er fyrir að gegnumslag verði í Vaðlaheiðargöngum í þessum mánuði og lýkur þar með greftri þeirra. Framkvæmdin er einhver sú umdeildasta í sögu samgöngumála hér á landi og hart var tekist á um hana á Alþingi, þegar ákveðið var að lána 8,7 milljarða króna svo göngin gætu orðið að veruleika. Áætlaður kostnaður við göngin er nú 14,5 milljarðar króna eða um 4,7 milljörðum meira en upphaflega var gert ráð fyrir.

Það var upp úr aldamótum sem farið var að skoða framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng af alvöru. Árið 2002 skilaði þriggja manna nefnd sem var skipuð af stjórn Eyþings, sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, af sér skýrslu um framkvæmdina. Í henni kom fram að framkvæmdin væri tæknilega einföld og myndi ganga upp fjárhagslega. Nefndinni var falið að kanna mismunandi fjármögnunarleiðir og var niðurstaðan sú að ekki yrði ráðist í verkefnið án aðkomu ríkisins. 

Einkahlutafélag stofnað um undirbúning

Í kjölfarið var einkahlutafélagið Greið leið stofnað um undirbúning að gerð ganganna. Öll sveitarfélögin innan Eyþings voru stofnendur og auk þess tíu fyrirtæki á svæðinu. Þar af voru stærstu hluthafar Kaupfélag Eyfirðinga, Akureyrarbær og Þingeyjarsveit, en í stað síðastnefnda sveitarfélagsins hefur Útgerðarfélag Akureyringa komið inn í félagið sem þriðji stærsti hluthafinn. Greið leið á í dag tæplega 61 prósent hlut í Vaðlaheiðargöngum hf., en Ríkissjóður Íslands á rúm 39 prósent. 

Það var árið 2003 sem fyrsta þingsályktunartillagan um Vaðlaheiðargöng var lögð fram á Alþingi, sem varaþingmaður VG, Hlynur Hallsson, lagði fram. Tillagan fór til samgöngunefndar sem óskaði eftir umsögnum, en tillagan komst aldrei í síðari umræðu og var því ekki samþykkt. Hún markaði þó ákveðið upphaf og frá og með þessu urðu Vaðlaheiðargöng eitt heitasta umræðuefnið í samgöngumálum því deilt var um hvernig standa ætti að framkvæmdinni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ósammála um þjóðhagslega arðsemi

Árið 2006 vann hagfræðingurinn Jón Þorvaldur Heiðarsson mat á þjóðhagslegri arðsemi Vaðlaheiðarganga fyrir Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri, þar sem fram kom að samfélagslegur ábati yrði um 1,16 milljarðar króna. Sú greining miðaðist við að göngin yrðu opnuð í janúar 2011 og að ekkert veggjald yrði innheimt. Þessar forsendur breyttust, því vinna við göngin hófst ekki fyrr en árið 2012 og nú er er gert ráð fyrir því að borga þurfi veggjald til að keyra í gegn. 

Gísli Hauksson, forstjóri fjármálafyrirtækisins Gamma, hefur hins vegar verið ósammála þessu en samkvæmt hans greiningu átti þjóðhagslegt tap af gerð Vaðlaheiðarganga að vera 4,3 milljarðar króna. Í maí á síðasta ári greindi DV svo frá því að samkvæmt uppfærðum tölum, vegna tafa sem urðu á framkvæmdum, væri það niðurstaða Gísla að þjóðhagslegt tap yrði tæpir 8 milljarðar króna. Ekki liggja fyrir aðrar greiningar á þjóðhagslegri arðsemi eða tapi.

Lengi var stefnt að því að lífeyrissjóðirnir kæmu að fjármögnun þessa verkefnis og fleiri í samgöngum. Viðræður stóðu yfir í níu mánuði, en þeim var slitið í desember 2010 vegna ágreinings um vaxtakjör. Því var ljóst að fara þyrfti aðra leið til að fjármagna framkvæmdir við göngin. Á endanum varð sú leið ofan á að hlutafélagið Vaðlaheiðargöng hf. myndi standa að framkvæmdinni og fá til þess lán frá ríkissjóði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ríkisábyrgðarsjóður efaðist um einkaframkvæmdina

Við undirbúning fyrir frumvarp um lánveitingu upp á 8,7 milljarða króna til framkvæmda við gerð ganganna óskaði fjármálaráðuneytið eftir því að fyrirtækið IFS Greining myndi vinna greinargerð. Þar voru niðurstöður Jóns Þorvaldar ekki sérstakt umfjöllunarefni því ekki var ágreiningur um þjóðhagslega arðsemi. Helstu niðurstöður þeirrar greiningar voru að forsendur varðandi stofnkostnað og rekstur væru innan raunhæfra marka. Óvissa væri hinsvegar um endurfjármögnunarkjör eftir 3 ára rekstrartíma ganganna.

Ríkisábyrgðarsjóður vann einnig skýrslu um framkvæmdina. Niðurstaða hennar var skýr; sjóðurinn hafði miklar efasemdir um að unnt yrði að endurfjármagna framkvæmdalánið. Þá taldi sjóðurinn það ljóst að verkið yrði ekki einkaframkvæmd eins og það var lagt upp í frumvarpinu, því ríkissjóður myndi taka á sig alla áhættu varðandi fjármögnun verkefnisins. Hún væri slík að eðlilegt væri að horfa til þess hvort ekki væri hagkvæmara að ríkissjóður myndi fjármagna verkefnið að fulla með sama hætti og gert er í opinberum framkvæmdum. 

Í greinargerð frumvarpsins, þar sem lagt var til að framkvæmdalánið yrði veitt, var vísað til beggja skýrslanna og það sagt ljóst að ríkissjóður myndi taka á sig áhættu.

„Spurningin sem þarf að svara í þessu sambandi er hvort áhættan sé ásættanleg eða ekki," segir í skýrslunni. 

Um áhættuna voru þingmenn alls ekki sammála, eins og Kvennablaðið rifjaði upp um síðustu helgi.

Umdeilt á Alþingi

Pétur Blöndal, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umræðum um frumvarpið að það væri bókhaldsbrella. „Mér finnst við stefna í nákvæmlega það sama og Grikkir voru hankaðir á með því að sýna ekki rétta skuldbindingar ríkissjóðs," sagði Pétur. Sjá má brot úr umræðum á þinginu hér að neðan, í sjónvarpsfrétt sem var gerð í júní 2012.

Mynd: RÚV / RÚV

Að lokum fór svo að frumvarpið var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 13. Fimm greiddu ekki atkvæði og 16 þingmenn voru með fjarvist eða fjarverandi. Á meðal þeirra sem sögðu já voru Árni Páll Árnason, Jóhanna Sigurðardóttir, Katrín Jakobsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Oddný G. Harðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Kristján L. Möller svo einhverjir séu nefndir. Allir þingmenn Norðausturkjördæmis kusu með frumvarpinu, nema Þuríður Backman sem var með fjarvist.

Þeir sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu voru Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Lilja Mósesdóttir, Ólöf Nordal, Pétur Blöndal, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Unnur Brá Konráðsdóttir, Baldvin Jónsson, Birgir Ármannsson og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir.

Mynd: RÚV / RÚV

Heildarkostnaður kominn upp í 11,5 milljarða

Í kjölfar þessa gátu framkvæmdir hafist, en árið 2011 hafði verkið verið boðið út. ÍAV/Marti átti lægsta tilboðið upp á rúmlega 8,8 milljarða króna. Samningar voru undirritaðir í febrúar 2013 en þá var uppreiknað tilboð verktakans 9,3 milljarðar króna. Heildarkostnaður var þá sagður vera 11,5 milljarðar króna, sem samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar eru 12,3 milljarðar króna í dag. Fyrsta sprenging var í júlí sama ár. Í nóvember voru göngin orðin kílómeters löng og aðeins var grafið Eyjafjarðarmegin. Fyrst um sinn var ágætur gangur í framkvæmdum.

Mynd: RÚV / RÚV

Vatn í stríðum straumi

Það var svo í febrúar 2014 sem verktakinn varð fyrir fyrsta áfallinu, þegar vatnsæð opnaðist við stafn ganganna þar sem 46 gráðu heitt vatn lak inn. Það var ekki síst þessi hiti sem gerði mönnum erfitt fyrir, frekar en vatnsflaumurinn. Lega ganganna gerði það að verkum að vatnið rann beint út og síðan þá hafa gufubólstrar í hlíðum Vaðlaheiðar verið kennileiti í Eyjafirði. Í ágúst var ákveðið að hætta greftri Eyjafjarðarmegin og hefjast handa Fnjóskadalsmegin, en það var meðal annars vegna þess að hitinn var orðinn óbærilegur í göngunum Eyjafjarðarmegin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV

Gröfturinn í Fnjóskadal gekk ágætlega allt fram í apríl 2015, en þá reið annað áfall yfir. Stór vatnsæð opnaðist inn í göngin, og vatnsflaumurinn inn í göngin var tvöfalt meiri en Eyjafjarðarmegin. Vatnið var hinsvegar kalt. Nú var það hinsvegar svo að lægsti punktur ganganna var sjálfur stafninn, sem þýddi að vatnið safnaðist þar upp og ekkert var hægt að vinna þar fyrr en öllu vatninu hafði verið dælt út. Fulltrúar verktaka og verkkaupa fóru inn í göngin á árabát til að kanna aðstæður og fréttastofa fékk að fljóta með.

Mynd: RÚV / RÚV

Mánuði síðar hóf verktakinn að sprengja að nýju Eyjafjarðarmegin og gröfturinn gekk ekki mjög hratt. Í febrúar 2016 var orðið ljóst að framkvæmdin væri að minnsta kosti ári á eftir áætlun og að lánið sem búið var að samþykkja myndi ekki duga til fyrir framkvæmdum. Þá var ljóst að ófyrirséður kostnaður hafði hækkað um einn og hálfan milljarð króna, úr 700 milljónum í 2,2 milljarða. Í bréfi til fjárlaganefndar vildi stjórn Vaðlaheiðarganga ekki gera ráð fyrir því að sá kostnaður myndi enn aukast því óvissan í gangagreftrinum væri hreinlega of mikil. Slík spá væri því ómöguleg. Síðar átti eftir að koma í ljós að ófyrirséður kostnaður var tvöfalt meiri en hann var orðinn á þessum tímapunkti.

Deilt um undirbúningsvinnu og rannsóknir

Háværar raddir heyrðust um að ekki hefði verið vandað nægjanlega vel til verka við undirbúning ganganna. Það hefði verið fyrirséð að mikið vatn myndi streyma inn í göngin. Í viðtali við fréttastofu sagði Þórður Víkingur Friðgeirsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, að 40 prósent rannsókna og athugana hafi vantað. Slík framkvæmd hefði aldrei verið samþykkt í Noregi, því ítarlegri kröfur væru gerðar þar við undirbúning. Hann benti einnig á það að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefði verið fyrsti þingmaður kjördæmisins og að freistnivandi væri til staðar hér á landi.

„Freistnivandi getur birst í þeirri mynd að ef umhverfið er óljóst, leikreglurnar óskýrar þá getur það gerst að þingmönnum veitist það léttara að koma gæluverkefnum sínum á framfæri vegna þess að það er ekkert viðnám er í stjórnsýslunni sjálfri. Og var það þannig í þessu tilviki? Ég ætla ekkert um það að segja en það verður hver að dæma um það fyrir sig,“ sagði Þórður Víkingur við fréttastofu í apríl 2014.

Kristján L. Möller, sem þá var samgönguráðherra og var þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu, svaraði þessu í júní sama ár. Hann sagði að ekki hefði verið hægt að sjá fyrir að vatnsflaumurinn yrði svo mikill sem raunin varð.

„Og ég segi, vegna þess að það er svo mikið af eftiráspekingum og - sérfræðingum sem sögðu: „Ég sagði ykkur þetta, þetta vissum við o.sv.frv.“ Ég myndi gjarnan vilja að Vegagerðin og Ríkissjóður gæti fundið þessa fyrirframsérfræðinga sem geta sagt okkur nákvæmlega um þetta vatn, hvað það er heitt eða kalt og hvað það er mikið. Það væri mikið borgandi að fá þá til að hjálpa okkur til að finna leiðina í gegnum fjallið, vegna þess að áfram munum við gera jarðgöng á Íslandi.“ 

Mynd með færslu
Mynd úr safni. Vatnsflaumurinn í gær og í dag er mun meiri en á þessari mynd. Mynd: RÚV

 

Fjármálaráðherra efast um viðskiptaáætlunina

Sumarið 2016 hófst síðan vinna við sprengingar Fnjóskadalsmegin að nýju og því var í fyrsta sinn borað beggja vegna frá. Gröfturinn gekk þó ekki sérlega hratt fyrir sig og jarðlögin voru erfið viðureignar. Í febrúar var komið í ljós að kostnaður við Vaðlaheiðargöng yrði að minnsta kosti 3,2 milljörðum meiri en upphaflega var gert ráð fyrir og vinna við að fá viðbótarlán frá ríkinu var hafin. Um miðjan mars sagði Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, að hann hyggðist leggja fram frumvarp um að lánið yrði veitt. Hann vildi leita til einkaaðila, meðal annars þeirra sem eiga hluti í Greiðri leið, til að fá fjármagn en þeir höfnuðu því. 

Í lok síðustu viku var frumvarpið rætt á ríkisstjórnarfundi og minnisblað lagt þar fram. Í því kemur fram að ríkið ætli að lána 4,7 milljarða í viðbót til verkefnisins. Með því er ljóst að framkvæmdin er komin 44 prósent fram úr áætlun og sagði Benedikt í kjölfarið að hann efaðist um að tekjur af veggjöldum myndu standa undir rekstri og afborgunum af láninu. Engu að síður væri það betra að lána meiri pening til að klára göngin og fá þá einhverjar tekjur, frekar en að láta þau standa ókláruð. Hann sagðist vongóður um að frumvarpið yrði samþykkt og undir það tók þingmaður Framsóknar, Gunnar Bragi Sveinsson, sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd.

„Ég held að það geri það nú, þótt margir geri það með óbragð í munni. Þessi framkvæmd er komin það langt að það verður ekki snúið við eins og er. En það er alveg vert að velta því fyrir sér hvort undirbúningur hafi verið nógu góður," sagði Gunnar Bragi aðspurður um hvort frumvarpið verði samþykkt.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kostnaður kominn upp í 14 og hálfan milljarð króna

Á sama tíma komst verktakinn mun lengra áfram en hann hafði gert áður á árinu 2017. Göngin höfðu ekki lengst nema um 19 metra að meðaltali í hverri viku, en í lok mars og byrjun apríl komst verktakinn áfram um tæpa 250 metra á þremur vikum. Nú er útlit fyrir að gegnumslag verði í lok apríl og þegar það tekst, verður allri óvissu í framkvæmdinni eytt og aðeins vegagerðin sjálf verður eftir. Stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf. sagði í febrúar að kostnaður við hana yrði rúmlega þrír milljarðar króna, en kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins var annað og því var talan hækkuð upp í 4,7 milljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga hf., Valgeiri Bergmann, er nú gert ráð fyrir því að heildarkostnaður við göngin verði 14,5 milljarðar á verðlagi í árslok 2016. Lánið sem var upphaflega veitt var 8,7 milljarðar á verðlagi í lok árs 2011 og framreiknað til ársloka árið 2016 var það 9,7 milljarðar króna. Um síðustu áramót höfðu Vaðlaheiðargöng notað 8,2 milljarða króna af upphaflega láninu og þá var það fyrir löngu orðið ljóst að það myndi ekki duga til. 

10 mínútur og 16 kílómetrar

Með tilkomu Vaðlaheiðarganga styttist vegalengdin á milli Akureyrar og yfir í Ljósavatnsskarð um 16 kílómetra, eins og sést á kortinu hér að ofan. Vegurinn frá Vaðlaheiðargöngum í Fnjóskadal heldur áfram niður að brúnni þar sem þjóðvegur 1 liggur í dag yfir Fnjóská og tengist honum þar. Miðað við að hægt sé að keyra þjóðveginn um Víkurskarð á 90 kílómetra hraða er líklegt að ökumenn spari sér í kringum 10 mínútur. Þetta á að sjálfsögðu við um bestu mögulegu aðstæður, því ekki er hægt að fara svo hratt í um þennan veg þegar færð er ekki sem best og sömuleiðis veður. Árið 2015 var umferð um Víkurskarð sú næstmesta, sé aðeins litið til helstu fjallveganna á þjóðvegi 1, Austfjörðum og Vestfjörðum.

Fjórði vegurinn

Hjalti Jóhannesson, hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, gerði viðtalsrannsókn árið 2016 þar sem hann ræddi við fólk sem keyrir reglulega yfir Víkurskarð. Þar er saga vegkaflans rifjuð upp, en fyrsti vegurinn yfir Vaðlaheiði hét einfaldlega Vaðlaheiðarvegur. Hann var hlykkjóttur og lokaðist yfir vetrartímann, en enn þann dag í dag er hægt að keyra þennan veg á vel útbúnum bílum. Vegurinn um Dalsmynni leysti hann af hólmi, sem var opinn lengur yfir vetrartímann. Sá vegur liggur í gegnum snjóflóðasvæði og eftir snjóflóð höfðu rutt burtu brú í tvígang, var ákveðið að finna aðra leið framhjá Vaðlaheiði. Þá var vegurinn um Víkurskarð lagður, en hann var tekinn í notkun árið 1983. Það var svo rétt fyrir aldamótin að farið var að ræða um göng í gegnum Vaðlaheiði, en ekki af alvöru fyrr en um miðjan síðasta áratug.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi