Vá! Hvað getur maður annað sagt?

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

Vá! Hvað getur maður annað sagt?

14.01.2018 - 23:03

Höfundar

Undrun gegnir lykilhlutverk andspænis öfgakenndu landslagi eins og jöklum því hún er kveikjan að því frumspekilega ímyndunarafli sem spinnur þráðinn milli fegurðar og ægifegurðar. Undrun og hið fagurferðilega augnablik eiga sameiginlegt að fela í sér óvenju einbeitta og innlifaða reynslu.

Í ljósi þess að ferðamennska er orðin ein helsta undirstaða efnahagslífs okkar gæti verið gott að skilja hvað felst í þessari upplifun ægifegurðar, skilja fagurferðilegt, upplifunar - og tilfinningalegt gildi íslensks landslags og hvaða merkingu, skilning og þekkingu slík reynsla getur skapað.

Þýski rithöfundurinn og heimspekingurinn Friedrich Schiller lýsti ægifegurð sem orkumikilli fegurð. Samtímaheimspekingar hafa sett ægifegurð í samhengi fræðigreina sem hæst bera um þessar mundir eins og femínisma og umhverfisfræða en einnig í samhengi lista og fagurfræði.

Skynjunin er grundvallaratriði
Fegurðaraugnablikið hefst með skynjununni þar sem litir, form, hljóð og lykt jafnvel andrúmsloft gegna höfuðhlutverki. Upplifun fólks af jöklum felst í ljósbláum ísnum, seitlandi vatni, lykt, yfirþyrmandi stærð og lögun jökulsvelgsins,  allir þessir skynrænu eiginleikar vekja þörf til að dvelja í augnablikinu, viðhalda, endurtaka og deila upplifun sinni með því að tala um hana, skrifa um hana, taka myndir.

Skynjun ægifegurðar í undrun og aðdáun verður oftar en ekki til þess að ímyndunaraflið fer að búa til myndir af því hvað mögulega liggi að baki þeim eiginleikum sem skynjaðir eru. Fagurferðileg og fyrirbærafræðileg nálgun eiga sameiginlegt að fresta fyrirframgefnum hugmyndunum og skoðunum og einbeita sér að hreinni skynjun. Undrunin inniheldur líka allt þetta með því að þegar við undrumst sjáum við umhverfið eins og í fyrsta sinn án tenginga við nokkuð annað eða með orðum þýska heimspekingsins Martins Heidegger, „að sjá hlutina eins og þeir eru,“ en ekki í ljósi einhvers annars. Hið fagurferðilega er með öðrum orðum kjarninn í allri reynslu okkar af heiminum. Frammi fyrir svo öfgafullu landslagi sem jöklum kemur undrunin sem upplifun á fegurð yfir okkur sem frumupplifun, eitthvað sem við aldrei höfum upplifað áður. 

Hefur fagurferðileg upplifun eitthvert gildi
Að mati Guðbjargar R. Jóhannesdóttur heimspekings felst gildi þess að upplifa fegurð, undrun og ægifegurð í náttúrunni fyrst og fremst í þeim áhrifum sem það getur haft á tengsl okkar við hvert annað, náttúruna og landslagið sem við dveljum í.  Fagurferðileg upplifun af þessum toga getur breytt viðhorfum okkar til veruleikans vegna þess að hún veitir okkur möguleika á að finna fyrir tengslum okkar með nýum hætti.

Fagurferðileg upplifun og náttúruvernd
Í rannsókn Guðbjargar á upplifun fólks af ægifegurð í ríki jökla kom í ljós að undrunin og ægifegurðin vakti ekki aðeins jákvæðar tilfinningingar. Tilfinningarnar sem vakna geta verið ónotalegar, vakið „óþægindi og tilfinningu fyrir því að eitthvað sé óleyst eða lagi sig ekki að skynfærum okkar.“ Fólk finnur fyrir smæð sinni andspænis ægifegurð náttúrunnar, jafnvel kemur upp ótti sem jafnframt felur í sér virðingu. Allar þessar tilfinningar eru mikilvæg forsenda til að takast á við mest aðkallandi vandmál samtímant varðandi hið náttúrulega umhverfi þegar „kemur að siðferði og ábyrgð, vernd og nýtingu.“

„Auknar upplýsinar og vísindalegar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun af mannavöldum virðist einar og sér ekki nægja til að meðtaka alla þá þekkingu, sem þörf er á að hafi áhrif og það strax í gær. Til þess að finna lausnir og virkja fólk, samfélög og stjórnvöld til viðbragða þurfum við ekki bara að geta reiknað út hversu hratt jöklarnir eru líklegir til bráðna við þurfum líka að öðlast nýjan mannskilning sem getur hjálpað okkur að takast á við þær mannlegu og félagslegu áskoranir sem loftslagsvandinn felur í sér. Aukinn skilningur á þeim tengslum sem myndast við fagurfræðilega upplifun af jöklalandslagi getur skipt sköpum á þeirri vegferð.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir. Ljósmynd Þorvarður Árnason

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir er heimspekingur og aðjúnkt við Arkitekúr og umhverfisdeild Listaháskóla Íslands og nýdoktor við Háskóla Íslands. Rannsóknir Guðbjargar beinast að umhverfisfagurfræði, umhverfissiðfræði, fyrirbærafræði, skynjaðri þekkingu, líkamleika, landslagi, þverfaglegu starfi og þátttöku