„Vá, hún talar íslensku við mig!“

01.01.2016 - 15:00
Mynd: Rætur / RÚV
Í fyrsta sinn sem Claudia Ashonie Wilson upplifði sig sem Íslending í raun stóð hún í stórum hópi fólks fyrir utan Dómkirkjuna og var að fylgjast með brúðhjónum ganga út úr kirkjunni. Þá kom kona aðvífandi og ávarpaði hana á íslensku: „Sástu brúðina?!"

Claudia segist varla hafa getað svarað konunni, því hún var svo uppnumin yfir því að hún skyldi ávarpa hana á íslensku í fyrstu tilraun. Claudia gekk skælbrosandi af Austurvelli með eina hugsun í kollinum: Ég er íslensk. 

Claudia er meðal þeirra sem rætt verður við í fyrsta þætti Róta, sunnudaginn 3. janúar, kl. 19:45. Rætur er fimm þátta sería um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi.

Á sunnudaginn kemur verður fjallað um hraða þróun íslensks samfélags í átt að fjölmenningarsamfélagi. Rætt verður við Pólverja um hvernig það sé að vera pólskur á Íslandi og kíkt í matarboð til filippseyskrar ömmu. Svo verður rætt við Zöhru Mesbah, unga afganska konu, sem kom til Íslands sem flóttamaður fyrir rúmum þremur árum. Zahra segir að sér líði eins og að á Íslandi séu henni allir vegir færir. 

Þetta líf, sem er venjulegt fyrir fólkið hérna, er bara draumalíf fyrir ungt fólk eða stelpur sem eru í sama ástandi og ég var í.

 

sigridurh's picture
Sigríður Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi