Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Útvarpsgjald lækkar; 175 milljóna sérframlag

18.12.2015 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útvarpsgjaldið lækkar í 16.400 krónur á næsta ári, úr 17.800 krónum. Ríkisútvarpið fær hins vegar 175 milljónir króna aukalega, sem verja á til kvikmynda- og þáttagerðar. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að fjárframlag til Ríkisútvarpsins verði því áfram það sama 2016 og það var 2015. Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa sagt að lækkun útvarpsgjaldsins jafngildi 500 milljónum króna.

Illugi lagði fram frumvarp í ríkisstjórn um að útvarpsgjaldið yrði óbreytt á næsta ári. Frumvarpið var lagt fram fyrir þremur vikum en rataði ekki fyrir þingið. 

 

Ég er mjög ánægður með það að það er komin niðurstaða í þetta mál.

Sagði Illugi undir kvöld.

Í þessu er fólginn ákveðinn svona stefnuvísir. Í þessu er fólgin ákvörðun líka um það að þessu verði veitt til innlendrar kvikmyndagerðar, þáttagerðar, unnar af sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmönnum. Þannig að útvarpið mun þá efla enn frekar þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum, í að kaupa efni að utan stofnunarinnar.