Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Útvarp Saga eyland í umsögnum um hatursorðræðu

21.03.2019 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hreiðar Þór Björnsson - RÚV
BDSM-samtökin, Samtökin '78 og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gagnrýna frumvarp dómsmálaráðherra þar sem lagt er til að lög um hatursorðræðu verði þrengd. BDSM-samtökin telja að breytingin flæki lögin að óþörfu og lögreglustjórinn lýsir áhyggjum af því að vernd þeirra minnihlutahópa sem ákvæðinu sé ætlað að vernda verði fyrir borð borin. Útvarpsstjóri Útvarps Sögu fagnar frumvarpinu og segir það skref í rétta átt og „til þess að vernda borgarana fyrir valdníðslu“.

Þetta kemur fram í umsögnum við frumvarpið sem var lagt fram af Sigríði Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Alls hafa tólf umsagnir borist. Sigríður hefur sagt að með frumvarpinu verði það áréttað að það sé ekki nóg að ummæli séu vitleysisleg heldur þurfi þau líka að kynda undir ofbeldi og hatri á manni eða mönnum. Frumvarpið er umdeilt og í morgun greindu bæði Visir.is og Fréttablaðið frá því að Eyrún Eyþórsdóttir, sem var um tíma varaþingmaður VG, hefði sagt úr flokknum vegna þess. 

BDSM-samtökin segja félagsmenn sína afar viðkvæman hóp sem upplifi margþætta jaðarsetningu og tilheyrandi ofbeldi. Þeir standi höllum fæti í forræðismálum og hneigðir þeirra hafi verið notaðar gegn þeim í dómsmálum. „Skaðinn, sem niðrandi ummæli sem beint er gegn viðkvæmum hópum getur valdið, ætti að vega þyngra á vogarskálum en réttur einstaklings til að viðhafa slík ummæli óátalið.“ Breytingar á lögum um hatursorðræðu ættu því að snúa að því að vernda jaðarhópa betur en nú sé gert en ekki draga úr vernd þeirra.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu segist ekki geta fallist á nauðsyn þess að þrengja umrætt ákvæði og „lýsir áhyggjum af því að vernd þeirra minnihlutahópa sem ákvæðinu er ætlað að veita verði fyrir borð borin.“ Embættið telur dómstóla fullfæra um að meta grófleika ummæla sem þurfi að koma til án þess að löggjafinn setji þeim of þröngar skorður. 

Samtökin '78 lýsa yfir eindreginni andstöðu við breytinguna. Ekki sé nauðsynlegt að auka vernd tjáningarfrelsis hér á landi heldur séu stjórnvöld í raun að gefa skotleyfi á minnihlutahópa í opinberri umræðu.  „Ekki er ljóst hvaða hagsmuni íslenska ríkið hefur af því að auka vernd fólks sem velur að spýja hatri yfir minnihlutahópa á opinberum vettvangi. “  Hatur sem byggi á fordómum gegn minnihlutahópum hafi aukist í löndunum í kringum Ísland og því sé það „gjörsamlega ábyrgðarlaust að þrengja ákvæði um hatursorðræðu.“

Meðal annarra sem hafa sent inn umsögn um frumvarpið má nefna Stjórn Q - félag hinsegin stúdenta, stjórn Hinsegin daga, Tabú og Mannréttindaskrifstofa Íslands sem hvetur til þess að tekið verði tillit til skaðsemi hatursorðræðu við fyrirhugaðar takmarnir á úrræðum brotaþola. 

Af umsögnunum tólf er þó ein sem sker sig úr, hún kemur frá Arnþrúði Karlsdóttur, útvarpsstjóra Útvarps Sögu, þar sem lýst  er yfir stuðningi við frumvarpið. Arnþrúður vill reyndar ganga lengra og telur ekki rétt að ákveðnir hópar séu teknir út og kallaðir minnihlutahópar. Þetta sé mismunun sem gangi gegn þeirri meginreglu að allir séu jafnir fyrir lögum.  

Arnþrúður telur að þessi lagagrein sem fyrrverandi dómsmálaráðherra vill þrengja hafi fært íslenskum stjórnvöldum óeðlilega mikið vald til þess að ráðast að ákveðnum einstaklingum og fyrirtækjum sem ekki séu stjórnvöldum að skapi. „Slíkt verklag sem Útvarp Saga hefur mátt þola af hálfu íslenskra stjórnvalda og orðið vitni að á ekkert skylt við mannréttindavernd heldur er fremur í ætt við ofsafengna þörf til þess að beita valdníðslu,“ skrifar Arnþrúður.