
Úttroðnar töskur af gjaldeyri og skarti
Þar á meðal voru hátt í þrjú hundruð kassar fullir af rándýrum veskjum og handtöskum frá hönnuðum á borð við Hermes, Luis Vuitton og Birkin. Yfir 70 af þessum töskum voru úttroðnar af erlendum gjaldeyri, úrum og skartgripum.
Húsleitirnar voru liður í viðamikilli rannsókn á spillingarmálum í tengslum við sérstakan fjárfestingasjóð malasíska ríkisins, 1MBD-sjóðinn, sem Najib setti á laggirnar. Hefur hann verið sakaður um að sölsa undir sig allt að 70 milljarða króna úr þeim sjóði með ólögmætum hætti. Najib hefur ætíð neitað sök og malasísk yfirvöld hreinsuðu hann af þeim áburði á meðan hann var enn í embætti. Hins vegar sætir hann enn rannsókn í nokkrum löndum öðrum vegna vafasamra fjármálagjörninga, sem einnig tengjast 1MBD-sjóðnum.
Najib fór fyrir Barisan Nasional, bandalagi hægri flokka sem verið hafði sleitulaust við völd í Malasíu frá því að landið fékk sjálfstæði árið 1957 og fram til 9. maí síðastliðins. Þá vann fyrrum samflokksmaður Najibs, hinn 92 ára Mahatir Mohamad, óvæntan kosningasigur eftir að hafa haldið sig fjarri öllu stjórnmálavafstri um 15 ára skeið. Hann tók við forsætisráðuneytinu daginn eftir og síðan hefur lögregla staðið í ströngu dag hvern við að leita í húseignum í eigu Najibs eða aðila sem honum tengjast, og hafa fjölmiðlar fengið að fylgjast óvenju vel með því ati öllu saman.
Þrátt fyrir að hann hafi áður verið hreinsaður af öllum ásökunum um undanskot og fjársvik, sem fyrr segir, þá hefur hann nú verið úrskurðaður í farbann. Arftaki hans, Mahatir Mohammad, íhugar nú að fara fram á að mál hans verði tekið upp á ný.