Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Úttekt gerð á geðheilbrigðismálum barna

Mynd: ruv / ruv
Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að vinna aðallúttekt á geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Markmiðið er að kanna hvort alvarlegir annmarkar séu á skipulagi þjónustunnar. Dæmi eru um að börn bíði í þrjú ár eftir greiningu. Heilbrigðisráðuneytið lofar auknum fjárveitingum.

Langir biðlistar eftir greiningu og meðferð hafa verið viðvarandi vandamál frá aldamótum og Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur gert alvarlegar athugasemdir við stöðuna.

Flöskuhálsinn fjarlægður

Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti í dag að Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fengi aukafjármagn til þess að vinna á þeim flöskuhálsi sem þar hefur myndast. Rúmlega 400 börn bíða þar greiningar, gera má ráð fyrir að tilvísanir verði yfir fimmhundruð á árinu og barn sem vísað er til nánari greiningar hjá stöðinni í dag getur vænst þess að bíða í 16 mánuði eftir að greiningarferlið hefjist. Börnin hafa þá, sum hver, beðið í tvö ár eftir frumgreiningu, sem fer fram hjá sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, heildarbiðtími getur því verið rúmlega þrjú ár.

Daglega hringja ráðþrota foreldrar

„Það hefur verið mikið álag á starfseminni, bæði vegna þess að það er verið að vísa til okkar fleiri málum en við höfum mannskap til að sinna og sömuleiðis hafa málin sem koma til okkar sífellt orðið flóknari og erfiðari. Fleiri börn eiga við mjög alvarlegan og fjölþættan vanda.“ Þetta segir Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar sem sinnir greiningum á röskunum á borð við einhverfu, kvíða og adhd. Hún segir að daglega hringi ráðþrota foreldrar í stöðina. Sumir nefni að börn þeirra séu farin að tala um að lífið hafi engan tilgang eða hafi sýnt af sér sjálfskaðandi hegðun. Gyða segir ljóst að biðtíminn hafi skaðleg áhrif. Við greiningu reynist vandi barnanna oft flóknari og viðameiri en tilvísunargögn gáfu til kynna og það þrátt fyrir að ýmis úrræði hafi verið reynd á biðtíma. 

Vonar að úttekt Ríkisendurskoðunar flýti fyrir

Gyða fagnar þeim skrefum sem tekin hafa verið síðustu daga. Hún vonar að úttekt ríkisendurskoðunar flýti fyrir því að málaflokkurinn verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar og segist í ljósi fjárveitingarinnar geta farið að svara ráðalausum foreldrum öðruvísi. Hún segir átaksverkefni þó ekki duga til eitt og sér. Nauðsynlegt sé að koma á fyrirkomulagi til framtíðar sem tryggi viðvarandi og góða þjónustu.

Þyrfti 50 milljónir króna

Átaksverkefnið á að vara út árið 2016 og á að gera stofnuninni kleift að veita um 200 börnum þjónustu, umfram það sem ella væri mögulegt. Þá verður settur á fót vinnuhópur til þess að skoða í víðu samhengi stöðu þeirrar þjónustu sem veitt er á Þroska- og hegðunarstöðinni en gert er ráð fyrir því að vinnu hans ljúki fyrir lok næsta árs.Upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytis segir ekki liggja fyrir hversu miklum fjármunum verði varið til verksins. Stofnunin getur nú sinnt um 270 börnum árlega.  Gyða telur að til þess að sinna 200 börnum aukalega á næsta ári þurfi stofnunin minnst 50 milljónir króna, þannig megi halda úti sex stöðugildum sálfræðinga í eitt ár.

Jólagjafasjóður hélt stöðinni gangandi

Áður en tilkynnt var um fjármagnið var fyrirséð að afköst stofnunarinnar myndu minnka á næsta ár, þar sem tímabundnir ráðningarsamningar sem gerðir voru við þrjá sálfræðinga í fyrra renna út um áramótin og að jafnvel þyrfti að loka á nýjar tilvísanir tímabundið. Sálfræðingarnir voru ráðnir fyrir tilstilli styrks sem fékkst úr Jólagjafasjóði Guðmundar Andréssonar gullsmiðs. Að öðru leyti hefur störfum hjá stofnuninni ekkert fjölgað frá árinu 2008 þó að fjöldi tilvísana hafi nær tvöfaldast á tímabilinu. Í ljósi fjárveitingarinnar virðist sem stöður sálfræðinganna þriggja séu hólpnar. Gyða telur þörf á níu varanlegum viðbótarstöðugildum, eigi starfsemin að verða sjálfbær. Nú eru stöðugildin við stofnunina 14,8.

ADHD númer eitt, tvö og þrjú

Tilvísunum vegna gruns um athyglisbrest eða ofvirkni hefur fjölgað mest, þær voru í ár áttfalt fleiri en þær voru árið 2006 og 92% nýrra tilvísana sem liggja á borði stofnunarinnar eru vegna athyglisbrests, þó oft glími barnið einnig við aðrar raskanir. Þá eru þau mál sem koma inn á borð stofnunarinnar þyngri og fjölþættari en áður. Annars vegar er þetta raunaukning, það er fleiri börnum er vísað í greiningu vegna gruns um raskanir. Hins vegar má rekja aukninguna til þess að inntökuskilyrði stofnunarinnar hafa verið rýmkuð og inntökuskilyrði annarra stofnana, svo sem Barna- og unglingageðdeildar Landspítala og Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins þrengd.

Ótækt að hópar verði útundan í kerfinu

BUGL sinnti greiningum á ADHD fram til ársins 2006 en þá tók þroska- og hegðunarstöðin við þeim. Gyða segir að nú sinni BUGL einkum bráðatilfellum.Tilfellum sem áður þótti rétt að vísa til BUGL er í auknum mæli vísað til Þroska- og hegðunarstöðvarinnar.

Greiningarstöð ríkisins sinnti einhverfurófsgreiningum barna sem teljast hafa eðlilega greind fram til ársins 2011. Þegar biðlistar fóru að lengjast var ákveðið að stöðin tæki einungis að sér greiningar barna með þroskahömlun. Svokölluð háttstandandi börn á einhverfurófi voru því utangátta í kerfinu í tvö ár, eða þar til Þroska- og hegðunarstöðin fór að taka við þeim vorið 2013. Á sama tíma fór stöðin að taka við unglingum með athyglisbrest, sem áður höfðu ekki átt rétt á úrræðum hjá hinu opinbera. Gyða segir ótækt að heilu hóparnir verði útundan í kerfinu þegar einstakar stofnanir breyta inntökuskilyrðum hjá sér. Stjórnvöld verði að koma í veg fyrir slíkt.

Þrír forgangslistar

Börnin sem nú eru að koma í athugun hjá Þroska- og hegðunarstöðinni hafa beðið í rúmt ár. Búist er við því að nýjar tilvísanir þurfi að bíða í 16 mánuði, það er tilvísanir sem borist hafa á síðari hluta þessa árs. Það gæti þó breyst í ljósi fjárveitingarinnar væntanlegu. Gyða segir að æskilegt væri að biðtíminn væri aldrei lengri en sex mánuðir. Að forgangsmálum væri sinnt innan tveggja mánaða. Danir hafa sett lög um að biðtími megi ekki verða lengri en einn mánuður, ef bíða þarf lengur getur foreldri leitað með barnið til einkaaðila á kostnað ríkisins. 

Biðlistinn er þrískiptur; skiptist í forgangslista eitt og tvö og svo almennan biðlista. Á forgangslista eitt eru 25 börn og biðtíminn tveir til þrír mánuðir, 65 eru á forgangslista tvö og biðtíminn í kringum hálft ár, 300 eru á almennum biðlista, biðtíminn í kringum ár.

Elstu og yngstu börnin í forgangi

Það sem hefur áhrif á hvort barn fer á forgangslista er fyrst og fremst alvarleiki vandans sem barnið glímir við. Aldur hefur líka áhrif. Þau sem bíða lengst eru börn á aldrinum fjögurra til fjórtán ára. Ung börn, undir tveggja ára, sem ekki eru komin í leikskóla, komast fljótt að. Þeim er vísað beint úr 18 mánaða skoðun í frumgreiningu en eftir henni bíða þau í 2-5 mánuði. Ef skimun bendir til alvarlegra frávika eða grunur er um einhverfu er þeim vísað á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Elstu börnin eru líka í ákveðnum forgangi, þau sem komu seint inn í kerfið og eru í efstu bekkjum grunnskóla eða á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nú er lagt kapp á að klára greiningu barna í 10. bekk. Þannig að því sé lokið áður en þau ljúka grunnskóla. Börn með sterkar vísbendingar um einhverfu fara líka í forgang. 

Alvarlegir veikleikar blasað við lengi

Forathugun Ríkisendurskoðunar á málaflokknum hófst í júlí. Markmiðið er að kanna hvort alvarlegir annmarkar séu á skipulaginu með tilliti til hagkvæmni, skilvirkni og árangurs. Í forathugun var sjónum einkum beint að löngum biðlistum, því hvernig samstarfi fagfólks og stofnana á mismunandi þjónustu og stjórnsýslustigum væri háttað, stöðu barna með tví- eða fjölþættan vanda og stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem unnið hefur verið að á vegum velferðarráðuneytis. Niðurstaða hennar er sú að alvarlegir veikleikar blasi við og hafi gert það lengi. Til dæmis hafi verið gerðar athugasemdir við alvarleg áhrif langs biðtíma eftir greiningu og meðferð í skýrslum og skjölum, allt frá aldamótum. Mörg grá svæði séu í þjónustu við börn með fjölþættan vanda þar sem þau þurfi aðstoð ólíkra þjónustukerfa á mismunandi stjórnsýslustigum. Ítrekað hafi verið kallað eftir skýrara og formfastara samstarfi ólíkra þjónustuaðila, þvert á skilgreind stjórnsýslu og þjónustustig. Starfshópar og fagfólk hafi bent á nauðsyn þess að efla þátt geðheilbrigðis í starfsemi heislugæslunnar. Einnig þurfi að efla grunnþjónustu í nærumhverfi barna og unglinga og fjölga úrræðum. Fagstéttir séu undirmannaðar og anni varla eftirspurn.

Lagaleg skylda stjórnvalda

Fram kemur að lagaleg skylda stjórnvalda til að tryggja börnum og unglingum geðheilbrigðisþjónustu sé ótvíræð og er þar vísað til laga um heilbrigðisþjónustu og réttindi sjúklinga. Þá hafi Ísland lögbundið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en með honum hafi ríkið skuldbundið sig til þess að kappkosta að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta besta heilsufars sem hægt sé að tryggja. íí niðurstöðum forathugunar ksegir að með því að sinna þörfum barna- og unglinga sem glíma við raskanir vel megi létta mjög álagi af velferðarkerfinu til framtíðar.

Ný geðheilbrigðisstefna taki ekki á vandanum

Um drög að nýrri geðheilbrigðisstefnu segir að hún verði að líkindum til þess að styrkja grunnþjónustu í geðheilbrigðismálum. Hins vegar kalli geðheilbrigðismál barna- og unglinga á frekari athygli. Ekki verði séð að í stefnunni sé tekið með afgerandi hætti á öllum veikleikunum sem einkennt hafa málaflokkinn um árabil og unnið gegn því að viðunandi árangur náist. Gyða tekur undir það. „Tillagan eins og hún liggur fyrir núna, ýtir ekki sérstaklega undir bjartsýni.“

Skýrslunnar að vænta í janúar

Í aðalúttektinni sem tekur til ítar- og sérfræðiþjónustu verður lögð áhersla á helstu þjónustuaðila, Barna og unglingageðdeild, sem sinnir einkum bráðatilfellum sem krefjst innlagnar, Greiningar og ráðgjafarstöð ríkisins sem sinnir börnum með verulega þroskahömlun, og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem sinnir greiningum á röskunum á borð við einhverfu, kvíða og adhd. Horft verður til samskipta þeirra og tengsla þeirra við sérfræðiþjónustu sveitarfélaganna og sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Markmiðið er að kanna hvort alvarlegir veikleikar séu á skipulagi málaflokksins. Kostnaður ríkisins vegna málaflokksins verður kortlagður og kannað hvort skipulagið eins og það er í dag stuðli að því að nauðsynlegum verkefnum sé sinnt á hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt. Gert er ráð fyrir að endanleg skýrsla verði gefin út í janúar 2016.

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV