Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Úttekt á aðkomu ríkisins að United Silicon

22.01.2018 - 10:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Ríkisendurskoðun vinnur nú að úttekt á aðkomu ríkisins að aðdraganda og eftirmálum þess að kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík tók til starfa. Stefnt er að því að úttektin verði tilbúin í lok mars.

Úttekin nær til fjárfestingarsamnings ríkisstjórnarinnar við fyrirtækið, aðkomu stjórnvalda að mati á umhverfisáhrifum, útgáfu starfsleyfa og eftirlits. Ríkisendurskoðun kannar einnig hvort og þá hvaða lærdóm stofnanir og ráðuneyti hafi dregið af málinu.

Beiðni um úttekina var lögð fram á Alþingi í desember síðastliðnum og var Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, fyrsti flutningsmaður hennar. Beiðnin var áður lögð fram í haust en þá tókst ekki að ljúka afgreiðslu hennar vegna stjórnarslita.

Ýmsum spurningum er beint til ríkisendurskoðunar um aðkomu ríkisins að United Silicon. Til að mynda hverjar skyldur stjórnvalda við útgáfu starfsleyfis séu og hvernig staðið hafi verið að veitingu þess. Ríkisendurskoðun er einnig falið að svara þeirri spurningu hvernig hafi verið staðið að athugun á áhrifum mengunar frá verksmiðjunni á heilsufar íbúa. Að sögn Þóris Óskarssonar, sviðsstjóra á stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar verður reynt að svara spurningunum að stærstum hluta. „Þetta er í vinnslu enn þá og ekki komið það langt að það séu komin drög að skýrslunni,“ segir hann. Þórir kveðst ekki vita til þess að Ríkisendurskoðun hafi áður gert slíka úttekt á stóriðjufyrirtæki.

United Silicon fór í greiðslustöðvun í ágúst. Hún var framlengd í desember og rennur út í dag. Engin framleiðsla hefur verið í verksmiðjunni eftir að Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina í september. Greint var frá því í fréttum í gær að Umhverfisstofnun gefi ekki leyfi til áframhaldandi starfsemi fyrr en lokið hafi verið við allar mögulegar úrbætur á verksmiðjunni. Norskt ráðgjafafyrirtæki hefur metið að lagfæringarnar kosti um þrjá milljarða íslenskra króna.