Útsvarstekjur Ísafjarðar langt undir áætlun

27.06.2017 - 01:39
Ísafjörður Ísafjarðarbær
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Fyrstu fimm mánuði ársins voru útsvarstekjur Ísafjarðarbæjar 86 milljónum krónum lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Á tímabilinu voru útsvarstekjurnar 691 milljón, en gert var ráð fyrir að þær yrðu 778 milljónir og því skeikar um 11 prósent. Þetta kemur fram á vef vikublaðsins Bæjarins besta.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir í samtali við vefinn að ekki sé ljóst hvað veldur þessum samdrætti. Hann bendir á að íbúum bæjarins hafi fjölgað á árinu og laun hafi ekki lækkað nema síður sé.

Gísli segir aðspurður að skýringin gæti verið bókhaldslegs eðlis. Unnið sé að því í samstarfi við Fjársýslu ríkisins að greina hvað hefur komið fyrir. „Það er þá ekki hjá okkur heldur hjá Fjársýslunni og skattayfirvöldum og við eigum eftir að fá betri upplýsingar um það. Við sjáum engar villur eða skýringar í bókhaldi bæjarins,“ er haft eftir honum í frétt bb.is.

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi