Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Útskrifaður af geðdeild

02.07.2012 - 22:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Hælisleitandi var fyrir helgi útskrifaður af geðdeild með því skilyrði að hann fengi inni hjá samlanda sínum á Selfossi. Sá hefur ítrekað skotið skjólshúsi yfir hælisleitendur sem hann segir marga komna á ystu nöf andlega.

Fréttastofa sagði á dögunum frá afdrifum Íranans Mohammeds Askarpoor sem sótti um hæli á Íslandi árið 2009 vegna ofsókna í heimalandi sínu. Hann var sendur til Grikklands hvaðan hann kom til Íslands en var sóttur aftur af íslenskum stjórnvöldum eftir 10 mánuði. Ekki þótti forsvaranlegt að senda hann í svo slæmar aðstæður sem grísk stjórnvöld búa hælisleitendum.

Neita að greiða aðgerð

Enn fær Mohammed ekki svar. Útlendingastofnun hefur hafnað flýtimeðferð og hefur biðin reynt svo á hann að vegna sjálfsvígshættu hefur hann verið vistaður á geðdeild. Þá hefur hann liðið miklar kvalir enda hafa stjórnvöld neitað að greiða fyrir aðgerð við sýkingu í ennisholum.

„Læknir hefur sagt að þetta sé nauðsynleg aðgerð en þau eru að segja að þau borgi bara fyrir lífsnauðsynlega aðgerð," segir Ali Mobli, velgjörðarmaður hælisleitenda. Ali segir að þau hafi lengi reynt að fá svör um hversu mikið aðgerðin kosti en það hafi ekki legið fyrir.  Loksins hafi þau fengið í dag upplýsingar um að aðgerðin kosti um 300 þúsund krónur.  Ali hyggst í samvinnu við Rauða Krossinn ætla að reyna að safna fyrir aðgerðinni þar sem Mohammad geti ekki beðið lengur. 

Atvinnuleyfi breytir miklu

Fjölmargir hælisleitendur hafa gist í gestaherberginu hjá Ali á Selfossi jafnvel vikum saman. „Fólk sem kemur hingað, við erum að æfa okkur, við förum í göngutúr, við tölum saman og lærum saman. Ég hjálpa þeim að læra ensku og íslensku ef þau vilja. Og bara gera það sem maður getur gert. "Hvernig líður þessu fólki sem kemur hingað?" „Mjög illa, mjög illa“ segir Ali.

Atvinnuleyfi myndi breyta miklu, en það er hægara sagt en gert að fá það. „Á Íslandi geturðu ekki byrjað að vinna fyrr en þú hefur fengið vinnuleyfi, en þú færð ekki vinnuleyfi fyrr en þú hefur fengið kennitölu. En þú færð ekki kennitölu fyrr en þú hefur vinnuleyfi. Þannig að þetta er svona catch 22.“

Og á meðan er biðin eftir svari er skelfileg segir Ali. Sálfræðingur Mohammads réð honum frá því að veita viðtal. Það yrði honum of erfitt.

„Þetta er bara svona limbo. Og þau eru ekki með drifkraft  til að læra íslensku eða til að gera neitt þar sem þau eru, bara að bíða og vita ekki hvort að þeim verði hent úr eða hvort þau fá að vera áfram. Og þetta er bara mjög erfitt fyrir þau.“

Bíður eftir svari um gjafsóknarbeiðni

Katrín Oddsdóttir er lögmaður Mohammads Askarpour.   Hún hefur fyrir hans hönd óskað eftir gjafsókn til að geta höfðað skaðabótamál gegn ríkinu fyrir ómannúðlega meðferð.  Hún segir að íslensk stjórnvöld hafi beitt Mohammad meðferð sem jafnist á við pyntingar eða ómannlega og vanvirðandi meðferð. Maðurinn hafi verið sendur í hörmulegar aðstæður og honum haldið í óvissu árum saman, án fullnægjandi læknisaðstoðar.

Í frétt RÚV um málið fyrir skömmu fullyrti Katrín að líkamlegt og andlegt ástand Mohammads mætti rekja beint til meðferðar íslenskra stjórnvalda.

„Þetta er ástæðan fyrir því að hann er á geðdeild í dag. Ég vil bara meina það og segi það bara hér og, og hvika hvergi frá því. Að, að hann hefur ekki fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Hann hefur ekki fengið það sem að Íslendingar álíta algjör lágmarksréttindi og til þess að geta lifað. Og hann er álitinn einhvers konar annars flokks manneskja í okkar samfélagi.“