Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Útlit fyrir að starfsmenn svæfu á verkstað

17.12.2018 - 13:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinnueftirlitið bannaði fyrir helgi vinnu á byggingarsvæði við Vesturberg 195 í Breiðholti þar sem fyrirtækið Fylkir ehf er með framkvæmd. Ákvörðunin var birt á vef eftirlitsins í dag. Í skýrslu þess segir að merki hafi verið um að starfsmenn svæfu og hefðust við á verkstað, þá hafi veigamikil atriði varðandi aðbúnað og öryggi starfsmanna verið í ólagi.

Vinna var bönnuð á öllu svæðinu þar sem eftirlitið taldi líf og heilbrigði starfsmanna í hættu.  Engar fallvarnir voru á verkpöllum, göt voru í gólfplötu hússins og byggingarefni og drasl á víð og dreif um svæðið. Fram kom að allt væri þetta til þess fallið að valda slysum. Þá kom fram að það vantaði öryggisáætlun og að starfsmenn hafi ekki notað hjálma eða klæðst öryggisskóm. Þá var gerð athugasemd við að á svæðinu starfaði réttindalaus kranastjórnandi. Maðurinn sagðist vera með erlend réttindi en það voru engin gögn á staðnum því til sönnunar.

Gerð er sú krafa að kranastjórnendur með erlend réttindi fái þau samþykkt hjá Vinnueftirlitinu.