Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Útlit fyrir að opnað verði fyrir umferð í dag

08.08.2018 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir
Vatnið úr Eldhrauni hefur sjatnað verulega og útlit er fyrir að opnað verði aftur fyrir umferð um þjóðveg eitt í dag.

Enn flæðir þó vatn yfir veginn vestan Kirkjubæjarklausturs og umferð verður áfram beint um Meðallandsveg þar til búið er að meta ástand vegarins. Þetta segir Ágúst Bjartmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Vík, í samtali við fréttastofu. Þjóðveginum var lokað um helgina eftir að hlaup hófst úr Skaftárjökli.

Ágúst segist bjartsýnn núna í morgunsárið og telur hann nánast víst að opnað verði fyrir veginn fyrr en síðar. Gera má ráð fyrir að fyrst um sinn verði umferð stýrt um afmarkaða braut þar til hægt verður að opna veginn að fullu.