Útlendingastofnun þarf meira fé

15.05.2012 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðherra gerði ríkisstjórninni grein fyrir stöðu Útlendingastofnunar gagnvart hælisleitendum á fundi sínum í morgun. Stofnunin þyrfti meira fé til að sinna mikilli fjölgun hælisleitenda. Ráðherrann segir ríkisstjórnina horfa á málið af raunsæi.

Kostnaður vegna hælisleitenda hér á landi er tæpar tvö hundruð milljónir á ári og hefur aukist töluvert undanfarin ár vegna mikillar fjölgunar hælisleitenda. Forstjóri Útlendingastofnunar hefur sagt að ráða þurfi tvo lögfræðinga til viðbótar til að geta tekið óskir um hæli hraðar fyrir en nú er. Fyrir þessu mælti Ögmundur Jónasson í ríkisstjórn í morgun. Hann benti á að hælisleitendur væru fleiri nú en undanfarin ár og við því yrði að bregðast.

„Við yrðum að finna leiðir til að stytta meðhöndlunartímann hjá Útlendingastofnun og þar með færist kostnaðurinn niður. Og hvernig var því tekið? Menn horfa á þetta af raunsæi.“

Engar ákvarðanir voru teknar en Ögmundur segir að rætt verði við fjármálaráðuneytið, og Alþingi hefði svo lokaorðið. Hins vegar sé nauðsynlegt að bregðast við stöðunni. „Það þarf eitthvað að koma til vegna þess að þarna er um óviðráðanlega framúrkeyrslu að ræða og við verðum bara að horfa raunsætt á þann veruleika.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi