
Útlendingar þjóni útlendingum
Nýlegar spár gera ráð fyrir 20 prósenta aukningu í komu ferðamanna til Íslands á milli ára næstu árin. Gangi þetta eftir er ljóst að störfum í ferðaþjónustu þarf að fjölga.
„Ef við ætlum að ná í tekjurnar þá þurfum við að manna störfin og það er gríðarleg fjölgun í störfum vegna þess að þetta er mannaflafrek grein. Langt umfram það sem að er meðaltalsfjölgun starfa hér á landi hefur verið undanfarin ár síðan 92 allavegana,“ segir Edward. „Það eru tíu þúsund til ársins 2022, bara í beinum störfum, bara í þessum kjarnagreinum,“ segir hann um fyrirsjáanlega fjölgun.
Með beinum kjarnagreinum ferðaþjónustunnar á Edward við farþegaflutninga með flugi, gistingu, ferðaskipulag og ferðaskrifstofur. Að auki megi gera ráð fyrir afleiddum störfum til viðbótar við þessi tíu þúsund. „En það er alveg ljóst að við Íslendingar munum ekki anna því að manna þessi störf? Ekki get ég séð það.“
Edward segir þetta vera þróunina víða um heim og engin ástæða sé til að ætla að þetta verði öðruvísi hér á landi. „Helsta stýritæki rekstraraðila í ferðaþjónustu út um allan heim þar sem að menn búa við árstíðarsveiflur sem er nú tiltölulega algengt það er einmitt inn og útflæði vinnuafls og nota farandverkafólk til að sinna störfunum.“