Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Útleigubann til ferðamanna brotið á bak aftur

15.05.2017 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: www.djupivogur.is - RÚV
Oddviti Djúpavogshrepps segir að heimild til að leigja ferðamönnum húsnæði í 90 daga, án þess að sækja um leyfi sveitarfélagsins, auki enn á húsnæðisskort, sér í lagi þegar mjög vanti leiguhúsnæði fyrir sumarstarfsfólk. Bann sem sveitarfélagið hafi sett við útleigu til ferðamanna í íbúðabyggð hafi verið brotið á bak aftur.

Um áramótin tóku gildi nýjar reglur sem eiga að einfalda skráningu á útleigu íbúða til ferðamanna. Að leigja út íbúð í 90 daga á ári og hafa minna en tvær milljónir í tekjur af því telst til svokallaðrar heimagistingar. Þá þurfa þeir ekki gistileyfi heldur þurfa aðeins að tilkynna um starfsemina til sýslumanns og starfsleyfi heilbrigðiseftirlits. Nokkur sveitarfélög þar á meðal Djúpavogshreppur hafa reynt að sporna við útleigu til ferðamanna í íbúðabyggð og sett bann við slíku.

„Með þessari 90 daga reglu sem var sett á um áramótin var það brotið á bak aftur og ég fæ ekki betur séð en að ríkisvaldið sé að ganga freklega á skipulagsvald sveitarfélaga með að leyfa gistingu af þessu tagi inni í íbúðahverfum. Í skipulagi er ekki gert ráð fyrir starfsemi af þessu tagi inni í íbúðahverfum þannig að þetta er sem sagt leyfislaus starfsemi með leyfi ríkisins. Það er mjög sérstakt,“ segir Andrés Skúlason, oddviti á Djúpavogi.

Fleiri sveitarfélög höfðu bannað útleigu íbúða til ferðamanna í íbúðahverfum. Fljótsdalshérað hafði sett bann við atvinnurekstri inn í skipulag í tveimur hverfum á Egilsstöðum og þar að auki bannað að húsnæði yrði breytt í gistihús í skipulögðum íbúðahverfum.  Andrés segir að á Djúpavogi snúist málið ekki bara um ónæði af slíkri starfsemi heldur líka um húsnæðisskort. „Þessir 90 dagar. Líkurnar á því að útleigan eigi sér stað, hún er yfirgnæfandi í  júní, júlí, ágúst. Það er akkúrat þegar, að í minni sveitarfélög eins og okkar og mörgum fleiri, er að koma mikið af vinnuafli inn á svæðið og vantar sárlega leiguhúsnæði.“

Hann telur hætt við því að menn fari fram yfir 90 daga án þess að tilkynna það. „Það er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem á að hafa eftirlit með þessu og þeir hafa ekki enn sýnt fram á hvernig í ósköpunum þeir ætla að gera það. Þannig að eftirlitið er mjög ótrúverðugt varðandi þennan þátt.“

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV