Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Útilokar ekki tillögu Þorgerðar

23.03.2013 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að kosið verði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið á fyrri hluta næsta kjörtímabils, komist flokkurinn í ríkisstjórn. Tillaga Þorgerðar Katrínar, um að kosið verði um framhald viðræðnanna samhliða kosningum komi þó til greina.

Sjálfstæðisflokkurinn hóf formlega kosningabaráttu sína fyrir komandi Alþingiskosningar í morgun, með fjölmennum opnum fundi með forystu flokksins á Hilton Reykjavík Nordica.

Forgangsmál flokksins á næsta kjörtímabili eru að sækja fram á öllum sviðum atvinnulífsins, lækka skatta á heimilin og fyrirtækin og auka ráðstöfunartekjur og taka á skuldavanda heimilanna.

Í ræðu Bjarna Benediktssonar formanns flokksins kom fram að komist flokkurinn í ríkisstjórn, verði kosið um framhald aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið á fyrri hluta næsta kjörtímabils.  „Jafnvel samhliða sveitarstjórnarkosningum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur engu að síður áherslu á að Íslendingar byggi samskipti sín við ESB á EES-samninginum.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi varaformaður flokksins lagði fram tillögu á Alþingi á dögunum um að kosið verði um framhald aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið samhliða Alþingiskosningunum.

Bjarni bendir á að utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna Alþingiskosninganna sé hafin og það flæki málið. „Mér finnst þetta of bratt, að kosið verði um þetta samhliða alþingiskosningunum,“ segir Bjarni sem vill þó ekki útiloka þessa tillögu, hann sé reiðubúinn til að skoða allt.  Það sé fyrst og fremst mikilvægt að þessar viðræður haldi ekki áfram enda hafi þær ekkert lýðræðislegt umboð. „Og við erum tilbúin til að gefa þjóðinni tækifæri til að veita þetta umboð ef það er hennar vilji.“