Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Útilokar ekki fjárstuðning frá ríki

14.08.2012 - 22:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Áætlaður kostnaður Súðavíkurhrepps vegna slökkvistarfs í Laugardal á dögunum, nemur níu prósentum af skatttekjum sveitarfélagsins og er verulega íþyngjandi fyrir rekstur þess. Innanríkisráðherra útilokar ekki að stjórnvöld muni taka þátt í kostnaðinum.

Súðavíkurhreppur hefur óskað eftir fjárstuðningi frá stjórnvöldum vegna mikils kostnaðar sem sveitarfélagið varð fyrir vegna sinubruna í Laugardal í Ísafjarðardjúpi. Þar brunnu um tíu hektarar lands, en um þrjátíu manns unnu við slökkvistarf þegar mest var. Súðavíkurhreppur áætlar að hátt í fimmtán hundruð vinnustundir hafi farið í slökkvistarf og heildarkostnaður sveitarfélagsins vegna þessa verði um sex og hálf milljón króna. Innanríkisráðherra gerði grein fyrir kostnaðinum á ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Ég taldi eðilegt að þetta kæmi inn á borð ríkisstjórnarinnar, hún yrði upplýst um málið enda er málið alvarlegt," segir Ögmundur og útilokar ekki að stjórnvöld muni hlaupa undir bagga með sveitarfélaginu „enda er það til marks um hve miklar áhyggjur við höfum af þessu máli að það skuli tekið inn á borð ríkisstjórnarinnar en hinsvegar hafa engar ákvarðanir verið teknar í þessu efni. Við eigum eftir að fara yfir þetta og munum fara yfir það með forsvarsmönnum hreppsins á næstu dögum," segir Ögmundur.