Útilokar ekki að sniðganga fleiri ríki

16.09.2015 - 11:55
Borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon (D) og Sóley Tómasdóttir (V). (Samsett mynd)
 Mynd: RÚV
Forseti borgarstjórnar segir að það skipti máli að Reykjavíkurborg sniðgangi ísraelskar vörur þótt viðskiptin séu takmörkuð. Hún segist ekki útiloka að borgin sniðgangi vörur frá fleiri ríkjum sem brjóta mannréttindi.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir að það sé hræsni að samþykkja viðskiptabann á lönd sem borgin á lítil viðskipti við en láta hjá líða að flytja sambærilegar tillögur um þau stóru. 

Skiptir máli þó við séum lítil borg

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær að fela skrifstofu borgarstjóra, í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar, að undirbúa og útfæra sniðgöngu á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir. Björk Vilhelmsdóttir lagði tillöguna fram en hún baðst lausnar úr borgarstjórn í gær. Í greinargerð með tillögunni segir að sniðganga af þessu tagi sé friðsamleg aðferð til að hafa áhrif á stjórnvöld og ráðahópa í ríkjum þar sem mannréttindi eru ekki virt og alþjóðasamþykktir að engu hafðar.

Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, segir tillöguna setja þrýsting á stjórnvöld í Ísrael.

„Með þessu erum við sem borgarstjórn, jafnvel þó við séum lítil borg á norðurhjara veraldar, þá erum við samt sem áður að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að beita Ísralesstjórn þrýstingi til þess að láta af hernámi á svæði Palestínufólks. Það skiptir mjög miklu máli.“ segir Sóley.

Fleiri tillögur hljóta að vera væntanlegar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, segist hafa greitt atkvæði gegn tillögunni þar sem hann sé efins um gagn og gildi viðskiptabanna yfirhöfuð eins og dæmin hafi sýnt í sögunni. Hann bendir einnig á að afskaplega lítil viðskipti séu með ísraelskar vörur. „Mér finnst það óneitanlega vera hræsni og tvískinnungur að samþykkja viðskiptabönn á ríki sem við eigum í litlum viðskiptum við en láta hjá líða að flytja sambærilegar tillögur um lönd sem borgin á í viðskiptum við þar sem mannréttindabrot eru framin í stórum stíl.“

Kjartan nefnir í þessu samhengi viðskipti með kínverskar vörur.

„Ef að borgarfulltrúar meirihlutans ætla að vera sjálfum sér samkvæmir þá hljóta þeir að halda áfram og flytja sambærilegar tillögur gagnvart öðrum löndum í heiminum sem brjóta mannréttindi“ segir Kjartan

 Sóley segist ekki útiloka að borgin sniðgangi vörur frá fleiri ríkjum. „Ég ætla ekkert að útiloka það en eins og kemur fram í bókun okkar þá væri náttúrulega best að innkaupareglur borgarinnar tryggðu það með almennum hætti að við reyndum að beina ekki viðskitpum okkar til þjóða eða fyrirtækja sem að verða uppvís að mannréttindabrotum. En þetta er bara eitthvað sem við þurfum að skoða i framtíðinni.“

anna.kristin's picture
Anna Kristín Pálsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi