Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Útgjöld til félagsþjónustu afar misjöfn

Mynd með færslu
 Mynd:
Útgjöld sveitarfélaga til félagsþjónustu á hvern íbúa eru afar mismunandi. Sveitarfélögin sýna mismikla félagslega ábyrgð segir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Fjölmenn sveitarfélög eins og Garðabær, Hafnarfjörður og Kópavogur greiða mun minna á íbúa en Reykjavíkurborg. Kópavogur er aðeins rúmur hálfdrættingur á við Reykjavík.

Íbúar í Árneshreppi á Ströndum greiddu minnst í félagsþjónustu á íbúa eða tæpar 20 þúsund í fyrra en í því sveitarfélagi eru einnig langfæstir íbúar eða 54. Akureyrarkaupstaður greiddi mest eða rúmlega 171 þúsund á íbúa. Þar inn í eru þó gjöld vegna heilsugæslu og þjónustu við aldraða en svo er ekki hjá langflestum hinna sveitarfélaganna. Þá sjá líka byggðasamlög sumra sveitarfélaga um hluta félagsþjónustu. Því verður að hafa í huga að tölurnar eru ekki alveg sambærilegar.

Björk Vilhelmsdóttir formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir sveitarfélög taka mismikla félagslega ábyrgð. „Reykjavíkurborg hefur ætíð tekið félagslega ábyrgð gagnvart íbúum sínum meðan önnur sveitarfélög gera það ekki. Það er líka þannig að fólk sem býr við mikla erfiðleika leitar til höfuðborgarinnar og það er þannig í þeim löndum sem við berum okkur saman við.“

Íbúar í Reykjavík greiða rúmar 159 þúsund krónur á mann í félagsþjónustu. Auk Reykjavíkur og Akureyrar sem þegar er nefnd eru útgjöldin mest í Sandgerði, Fljótsdalshéraði, Mosfellsbæ, Hrunamannahreppi, Ísafirði, Akranesi, Reykjanesbæ og Húnaþingi vestra. Athygli vekur að fjölmennustu sveitarfélögin eins og Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær eru ekki þarna á meðal. Íbúar í Kópavogi greiða nærri helmingi minna en íbúar í Reykjavík á mann til félagsþjónustu eða 86 þúsund. Hafnarfjörður greiðir 94 þúsund og Garðabær 69 þúsund.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga niðurgreiðir ekki félagsleg útgjöld en Björk segir að borgin hafi talað fyrir því án árangurs. Hún segir að sveitarfélögin verði sjálf að ákveða hve háum fjárhæðum þau kjósa að verja í félagsþjónustu. „Annað hvort finnst mér að þau eigi að taka sig á og veita betri þjónustu þannig að fólk þurfi ekki að flytja vegna félagslegs vanda búferlaflutningum þar sem þjónustan er í boði eða þá að þetta sé jafnað í gegnum jöfnunarsjóð. Það er eðlilegt,“ segir hún.