Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Útgerðarmenn kalla eftir aukinni loðnuleit

28.01.2016 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun - hafro.is
Almennt er mikil ánægja með samvinnu útgerðanna og Hafrannsóknarstofnunar um tillhögun rannsókna á stofnstærð loðnu í ár. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir stjórnvöld og Hafrannsóknarstofnun fylgjast mjög vel með og grípa til sinna ráða ef þörf verður talin á. Að sögn Þorsteins Sigurðssonar hjá Hafrannsóknarstofnun er ekki hægt að útiloka frekari rannsóknir en farið verður yfir stöðuna á fundi með útgerðarmönnum í dag. Þeir funda svo með ráðherra á mánudag.

Funda með ráðherra

 Forsvarsmenn útgerða í uppsjávarveiðum funda með ráðherra á mánudag en útgerðarmenn kalla eftir frekari rannsóknum í þeirri von að mælingar á stofnstærð loðnunnar sýni að tilefni sé til að gefa út aukinn kvóta. Ný aflaregla tók gildi í ár og koma um 100.000 tonn í hlut íslenskra útgerða. Þau hefðu verið umtalsvert fleiri ef eldri regla hefði enn verið í gildi. Telur Síldarvinnslan á Neskaupsstað að heildarverðmæti þess afla sem veiddur verði í ár verði á bilinu 11-12 milljarðar króna. Sigurður Ingi Jóhannsson segir að mikil samstaða sé um að fylgja þeirri nýju aflareglu sem Hafrannsóknarstofnun notar enda sé hún mjög sambærileg við þær reglur sem notaðar eru við úthlutun kvóta úr Barentshafi og byggi vottun loðnuafurðanna á henni.

Flóknir útreikningar

Þorsteinn Sigurðsson, sviðstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknarstofnunnar segir allar mælingar benda til þess með nokkurri vissu að stofninn sé á bilinu 500.000 – 800.000 tonn. Eins og er ætli stofnunin sér að hinkra en samkvæmt reiknireglum og þeirri stærð loðnustofnisins sem hafi fengist samkvæmt síðustu mælingu með 95% vissu, sé hann 675.000 tonn. Nýjar mælingar geti vissulega leitt af sér aukinn kvóta, en það sé aldrei hægt að gefa út kvóta án þess að vissa sé fyrir um að allur stofninn hafi verið mældur og það sé flókið mál. Gott veður hafi verið til mælinga á því tímabili sem nú sé miðað við. Nýjar mælingar gætu eins leitt til þess að endurskoðað aflamark leiddi af sér minni kvóta. Það sé ekki hægt að gefa sér neitt í þeim efnum fyrirfram.  

Fá skip á veiðum og stuttir túrar

Útgerðarmenn gagnrýna að ekki sé haldið áfram að leita því mikið sé í húfi fyrir alla aðila. Loðnuveiðar eru stundaðar af 13 fyrirtækjum í 10 sveitarfélögum og því ljóst að fjölmargir aðilar í landinu koma að veiðum og vinnslu loðnunnar. Samkvæmt upplýsingum frá útgerðunum eru 17 skip sem koma að veiðunum, 4 vinnsluskip og 13 skip sem landa aflanum til vinnslu, þegar almenn vertíð er í fullum gangi. Þó loðnukvóti hafi verið gefin út í ár eru aðeins 3 skip á veiðum og gengur vel að sækja afla á stuttum tíma. Tvö vinnsluskip eru nú inná Norðfirði að undirbúa löndun frystrar loðnu að sögn Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað eftir stuttar veiðiferðir. Útgerðirnar freista þess að sækja sínar heimildir þegar hrognafylling loðnunnar er orðin meiri. Lítið verði heilfryst af loðnu á vertíðinni.

Ríkir hagsmunir réttlæti frekari rannsóknir

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað telur að íslenska uppsjávarflotanum starfi um 260 sjómenn en að í landi megi reikna með að starfi um 600 manns við loðnuvinnsluna þegar hún er í fullum gangi hjá þessum fyrirtækjum öllum. Gunnþór áætlar að launagreiðslur í tengslum við veiðar og vinnslu á 100 þúsund tonnum af loðnu nemi um 2,8 milljörðum króna. Jafnframt segir hann tekjur á loðnuvertíð vega þungt í árstekjum sjómanna á loðnuskipunum og starfsmanna þeirra fyrirtækja sem annast vinnsluna. Aðra 2,8 milljarðar telur Gunnþór fyrirtækin og starfsfólkið greiða samanlagt í gjöld og skatta en hagnaður útgerðarinnar miðað við þessar tölur getur numið um 6 milljörðum króna.