Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Útgerðarmenn á Breiðdalsvík óánægðir

Mynd með færslu
 Mynd:
Útgerðarmenn á Breiðdalsvík eru óánægðir með að engin umsókna þeirra um sérstakan byggðakvóta hafi hlotið náð fyrir augum Byggðastofnunar. Heimamenn áforma að endurvekja fiskvinnslu á staðnum.

Byggðastofnun hefur til úthlutunar sérstakan byggðakvóta 1800 þorkígildistonn til að styrkja byggðir í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Þessum potti verður úthlutað næstu þrjú ár árin með möguleika á framlengingu til tveggja ára.

Sex byggðarlög töldust koma til greina, Breiðdalsvík, Drangsnes, Flateyri, Raufarhöfn, Suðureyri og Tálknafjörður. Öll fengu úr pottinum nema Breiðdalsvík. Afgangs urðu 150 tonn og var ákveðið að þau færu til Bakkafjarðar ef þaðan kæmu nógu góðar umsóknir. 

Íbúar á Breiðdalsvík eru mjög svekktir yfir niðurstöðunni.  Austurglugginn hefur eftir Páli Baldurssyni sveitastjóra að Breiðdælingum finnist þeir hafðir að fíflum. Byggðastofnun vinni náið með Breiðdalsvík í gegnum verkefnið Brothættar byggðir og hafði nýlega staðið fyrir íbúaþingi um framtíð staðarins. 

Á undanförnum árum hefur verið reynt að endurvekja fiskvinnslu á Breiðdalsvík en þrátt fyrir að auknum afla sé landað á staðnum hefur ekki tekist að halda vinnslunni gangandi. Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, segir að þeir sem stóðu að umsóknunum frá Breiðdalsvík hafi ekki átt nógu miklar aflaheimildir til að leggja á móti.

Umsóknirnar töldust því ekki samræmast markmiðum um að styrkja og að halda úti heilsársvinnslu. Reynslan sýni að fólk leiti annað þegar stöðug vinna er ekki í boði. Því sé heilsársvinna nauðsynleg til að halda í starfsfólk. Ein hugmyndin gekk út á að menn veiddu kvótann og notuðu hagnaðinn til að styrkja ferðaþjónustu það þótti ekki samræmast markmiðum um að efla vinnslu. 

Á hinum stöðunum séu meiri aflaheimildir og þar leggi útgerð meira en þrefalt á móti byggðakvótanum. Og þrátt fyrir allar aflaheimildirnar sé þar fiskvinnsla fyrir sem þurfi stuðning. Potturinn hefði þurft að vera mun stærri hefði hann átt að duga í að endurvekja vinnslu á Breiðdalsvík. Heimamenn ætla hinsvegar að halda verkefninu áfram þó byggðakvóti hafi ekki fengist. 

Sigurður segir greinlegt að íbúar á Breiðdalsvík hafi talið að verkefnið Brothættar byggðir og úthlutun byggðakvóta hefðu átt að vinna saman. Byggðastofnun hafi hinsvegar ekki geta tengt þessi verkefni með beinum hætti enda þurfti hún að gæta jafnræðis við úthlutun kvótans. 
Hann bendir á að Byggðastofnin eigi frystihúsið á Breiðdalsvík og að uppi eru hugmyndir hjá heimamönnum um að breyta frystihúsinu og nota undir aðra starfsemi. Byggðastofnun hafi verið jákvæð í garð slíkra hugmynda.