Útgefendur styrktir en bækur áfram skattlagðar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Útgefendur styrktir en bækur áfram skattlagðar

11.09.2018 - 10:31

Höfundar

Áform um afnám virðisaukaskatts á bækur, sem lofað var í sáttmála ríkisstjórnarinnar í lok síðasta árs, hafa verið lögð á hilluna. Í staðinn mun Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á nýju þingi leggja fram frumvarp um beinan stuðning við bókaútgefendur með það að meginmarkmiði að efla íslenska tungu. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Lagt er til að bókaútgefendur fái 25% af kostnaði við útgáfu bóka á íslensku endurgreiddan.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindi frá því þegar hann kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í morgun að frumvarp um stuðning við bókaútgefendur væri væntanlegt og að það tengdist fjárlagafrumvarpinu. Hann greindi ekki frekar frá því hvað það fæli í sér.

Hafþór Eide Hafþórsson, aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, segir í samtali við fréttastofu að frumvarpið verði kynnt nánar á næstu dögum og vill ekki upplýsa um það að svo komnu máli hvernig stuðningurinn verður útfærður.

Hefur margboðað skattaafnám

Lilja hefur margboðað afnám virðisaukaskatts á bækur. Hún lagði fram frumvarp þess efnis í fyrrahaust, þá sem óbreyttur þingmaður. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum.“

Í grein sem Lilja ritaði í Morgunblaðið í apríl fullyrti hún að ríkisstjórnin mundi afnema virðisaukaskatt á bækur frá og með ársbyrjun 2019, enda væri kveðið á um það í ríkisfjármálaáætlun áranna 2019-2023.

Vildu ekki undanþágur

Nú hafa þau áform hins vegar verið lögð á hilluna. Í fjárlagafrumvarpinu segir að helsta ástæðan sé að nauðsynlega þurfi að viðhalda skilvirkni virðisaukaskattskerfisins. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa embættismenn einkum haft áhyggjur af tvennu í tengslum við boðað afnám virðisaukaskatts á bækur:

Í fyrsta lagi að sú breyting mundi einnig ná til innfluttra bóka á erlendum tungumálum og þannig skerða tekjur ríkissjóðs meira en meginmarkmiðið, að efla stöðu íslenskrar tungu, hefði krafist.

Hins vegar hafa bókaútgefendur í viðræðum við stjórnvöld lagt áherslu á að kæmi til skattaafnámsins væri brýnt að þeir héldu heimild sinni til innsköttunar – yrðu þeir sviptir henni mundi afnám virðisaukaskatts í lægra þrepi hafa neikvæð áhrif á heildarafkomu þeirra og vera verri en til einskis. Þetta hefði hins vegar orðið svo til einsdæmi: að einn geiri hefði heimild til innsköttunar en væri undanþeginn útsköttun. Slíkar undanþágur hugnuðust embættismönnum afar illa.

Forstjóri Forlagsins bjartsýnn

Egill Örn Jóhannsson, forstjóri Forlagsins og fyrrverandi formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segist bjartsýnn á tillögurnar. „Ég á eftir að sjá kynningu ráðherra á þessu,“ tekur hann fram. „En ég er bjartsýnn og hlakka til að sjá hvað menntamálaráðherra segir þegar þetta skýrist betur.“

Spurður hvort hann telji að beinir styrkir sé ekki síðri hugmynd en skattaafnám segir hann að það fari allt eftir útfærslunni. „Ég hef góða hugmynd um hvaða áhrif afnáms virðisaukaskattshefði á rekstur forlagsins en ég veit ekki hvaða áhrif þetta hefur.“ segir hann. „En ég geng út frá því að þetta verði ekki lakara en hefði falist í afnámi virðisaukaskatts.“

Uppfært kl. 10.47:
Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að Egill Örn Jóhannsson væri formaður Félags íslenskra bókaútgefenda. Hið rétta er að Egill lét af formennskunni fyrr á árinu.

Uppfært kl. 11.31:
Annars staðar í frumvarpinu, í kaflanum um menningarsjóði, kemur fram að styrkirnir verði útfærðir með líkum hætti og styrkir til kvikmyndagerðar og tónlistar: útgefendur geti fengið endurgreiðslu á 25% af kostnaði við útgáfu bóka á íslensku.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bjartsýnn á afnám virðisaukaskatts

Stjórnmál

Afnema ekki virðisaukaskatt á bækur strax