Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Útbúa gamaldags analog hljóðver á Stöðvarfirði

Útbúa gamaldags analog hljóðver á Stöðvarfirði

05.03.2018 - 11:07

Höfundar

Vonir standa til þess að tónlistarmenn frá öllum heimshornum sækist eftir því að taka upp plötur á Stöðvarfirði. Þar er verið að útbúa hljóðver sem nýtir gamla tækni og segulbönd til að tónlistin hljómi eins og í gamla daga.

Í sköpunarmiðstöðvinni á Stöðvarfirði er nú verið að búa til áferð á veggi hljóðversins, sjálfa hljóðvistina en hana gerði bandaríski hljóðrýmishönnuðurinn John Brandt

Írski rafeindaverkfræðingurinn Vincent Wood er hins vegar maðurinn á bak við tæknina í hljóðverinu en hann býr á Stöðvarfirði. „Við erum að setja upp fullkomið upptökuhljóðver. Fyrir tónlistarmenn ekki bara frá Íslandi heldur öðrum löndum líka. Til að taka upp plötur og dvelja hér. Það verður hægt að búa hérna því við erum langt í burtu,“ segir Vincent.

Hann sýnir okkur timburverk sem er í smíðum í horninu á einu herberginu í hljóðverinu. „Hér höfum við einn af hljóðdreifurunum sem verða í hljóðverinu. Þeir verða ófáir á víð og dreif um herbergin. Þetta er til að dempa hljóðið í þessu horni og mun endurkasta ákveðnum tíðnum eða tónum mætti segja í allar áttir. Venjulegur veggur myndi endurkasta hljóðinu beint sem hentar ekki við upptökur,“ segir Vincent.

Þegar okkur bar að garði var Rósa Valtingojer, starfsmaður í sköpunarmiðstöðinni, að líma steinvölur á vegg í einu herbergi hljóðversins. „Við vonum að þetta verði aðdráttarafl. Þetta er svo sérstakt á mörgum sviðum, bæði staðsetningin og hönnunin,“ segir Rósa.

Vincent vonar að hljómgrunnur verði fyrir gömlum analog eða hliðrænum upptökutækjum hjá tónlistarmönnum. „Þau ná að mínu mati jafn miklum gæðum og stafræn upptaka og hljóma jafnvel aðeins betur og hafa ákveðin karakter,“ segir hann.

Vincent er rafeindaverkfræðingur og hefur sankað að sér gömlum mögnurum til dæmis úr talstöðvakerfi Landsímans. Hann hefur líka hirt íhluti úr ónýtum mögnurum og raðar þeim saman þannig að úr verður eitthvað nýtt. Á heimili hans og konu hans á Stöðvarfirði hefur hann útbúið herbergi þar sem íhlutir í hin ýmsu tæki vella fram úr óteljandi smáskúffum sem eru upp um alla veggi, sumar búnar til úr mjólkurfernum. Þar lóðar hann saman tækin.

„Hér er mjög fallega hljómandi hljóðnemamagnari. Í honum eru mjög gamlir lampar sem eru búnir til úr málmi í stað glers. Þeir eru frá sjötta áratugnum og fyrr. Mjög gömul tækni. Við leggjum mikið í þetta og göngum langt í að gera þetta vel í stað þess að það gangi hratt. Þannig að ég vona að hingað komi áhugavert fólk,“ segir Vincent.

Einnig var fjallað um hljóðverið í Landanum í gærkvöld.