Útblástursskýið í andlitshæð smábarnanna

Mynd með færslu
 Mynd:

Útblástursskýið í andlitshæð smábarnanna

31.03.2014 - 17:08
Forðast ætti að setja bílinn í gang meðan skafið er af rúðunum til að koma í veg fyrir óþarfa loftmengun. Sömuleiðis skiptir máli að drepa á bílnum í stuttu stoppi áður en ferðinni er haldið áfram. Þetta á ekki hvað síst við ef smábörn eru nálægt. Útblástursskýið er þá í andlitshæð þeirra.

Nýlega var sagt frá í fréttum að loftmengun væri orsök mun fleiri dauðsfalla en áður var talið. Þannig létust allt að sjö milljónir manna ótímabærum dauðdaga vegna loftmengunar árið 2012. 

Stefán Gíslason fjallar um loftmengun innan dyra og utan í Sjónmáli í dag. 

Sjónmál mánudaginn 31. mars 2014 

-------------------------------------------------------------------------------    

Loftmengun

Loftmengun bar á góma í spjalli okkar Leifs Haukssonar í Sjónmáli síðastliðinn fimmtudag. Þar kom meðal annars fram að á árinu 2012 hefðu hvorki meira né minna en 7 milljónir manna í heiminum dáið ótímabærum dauðdaga vegna loftmengunar. Talan 7 milljónir getur verið lítil eða stór, allt eftir því hvernig á hana er litið. Sé hún skoðuð í íslensku samhengi er hún örugglega stór, því að sá fjöldi manns sem féll í valinn vegna loftmengunar árið 2012 er meira en tuttugufaldur íbúafjöldi Íslands. Og talan er líka stór þegar haft er í huga að þetta eru tvöfalt fleiri en áður hafði verið áætlað.

Upplýsingarnar um þessar sjö milljónir dauðsfalla komu fram í skýrslu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) birti í síðustu viku. Þar kom líka fram að nú mætti rekja eitt af hverjum átta dauðsföllum í veröldinni til loftmengunar og að þar með væri loftmengun orðinn mesti skaðvaldurinn af öllum þeim umhverfisógnum sem steðja að mannkyninu.

Hingað til hefur loftmengun öðru fremur verið tengd við öndunarfærasjúkdóma, þar á meðal öndunarfærasýkingar af ýmsu tagi, lungnaþembu o.fl. Nú telja menn sig hins vegar hafa sýnt fram á skýrari tengsl en áður við sjúkdóma á borð við heilablóðfall og aðra sjúkdóma sem rekja má til blóðþurrðar.

Það kemur sjálfsagt fáum á óvart að dauðsföll vegna loftmengunar verða flest í löndum þar sem meðaltekjur eru lágar, svo sem í Suðaustur-Asíu. Þá verða sumir þjóðfélagshópar frekar fyrir barðinu á þessari ógn en aðrir, sérstaklega konur, börn og eldri borgarar, en þessir hópar eiga það m.a. sameiginlegt að eyða tiltölulega stórum hluta af tíma sínum innandyra, þar sem loftmengun er mikil, svo sem frá eldstæðum þar sem kol og eldiviður eru notuð í eldamennsku og til upphitunar.

Með nánari greiningu á fyrirliggjandi upplýsingum hafa sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunarinnar komist að því að loftmengun innandyra kom við sögu í 4,3 milljónum dauðsfalla af þeim sjö milljónum sem um ræðir. Þessi greining byggir á nýjum og betri upplýsingum um mengunarálag innandyra á heimilum þar sem brenni, kol og tað er notað til eldamennsku, en áætlað er að enn búi 2,9 milljarðar manna á heimilum þar sem svo háttar til. Þarna er verið að tala um svipaðar aðstæður og íslensk alþýða, sérstaklega konur, bjó við í hlóðaeldhúsum fortíðarinnar. Þetta er með öðrum orðum ekki eins fjarri okkur og ætla mætti.

Rétt eins og loftmengun innandyra kom við sögu í 4,3 milljónum dauðsfalla af þeim sjö milljónum sem um ræðir átti loftmengun utandyra þátt í 3,7 milljónum dauðsfalla. Talnaglöggir menn veita því trúlega eftirtekt að með þessu er heildarfjöldinn kominn í 8 milljónir en ekki sjö eins og áður var sagt. Þetta er ekki reiknivilla, heldur er þarna um vissa skörun að ræða, enda líða býsna margir bæði fyrir loftmengun innandyra og utan.

 Þegar allt kemur til alls er loftmengun, innandyra sem utan, ekkert náttúrulögmál, heldur fyrst og fremst hliðarafurð misheppnaðrar stefnumótunar eða engrar stefnumótunar í umferðarmálum, orkuvinnslu og iðnaði. Þarna er með öðrum orðum hægt að bæta stöðu mála mjög verulega með pólitískum ákvörðunum einum og sér. Aukin áhersla á loftgæði myndi bæði skila sér í betri efnahag, betri heilsu og heilbrigðara samfélagi.

 Allt það sem hér hefur verið sagt hlýtur fyrst og fremst að gilda um fólk í útlöndum, enda loftgæði á Íslandi ábyggilega með því besta sem gerist. Eins og ég nefndi áðan er þó ekki svo ýkja langt síðan forfeður okkar, og þó sérstaklega formæður, bjuggu við kröpp kjör í íslenskum hlóðaeldhúsum. Og reyndar getum við litið okkur enn nær. Svifryksmengun við umferðargötur fer til dæmis yfir heilsuverndarmörk nokkrum sinnum á ári. Á slíkum dögum er gott að hafa í huga að loftmengun er ekkert endilega bráðdrepandi, heldur safnast vandamálið fyrir með tímanum, eða er með öðrum orðum seigdrepandi. Þess vegna ættum við að forðast eftir megni að anda að okkur mengandi lofti, hvort sem loftið kemur frá bílum sem eiga leið hjá, opnum eldi utandyra eða bara brauðristinni í eldhúsinu.

 Þegar rætt er um loftmengun í íslensku samhengi er gott að hafa í huga að börn geta verið viðkvæmari en fullorðnir, bæði vegna þess að hvers konar áreiti getur haft meiri áhrif á fyrstu árum ævinnar, það er að segja á meðan líffæri líkamans eru enn að þroskast og vegna þess að börnin eru stundum nær loftmenguninni, af því að nefin á þeim eru alla jafna neðar en nef fullorðinna.

 Þessu síðastnefnda atriði með nefin ætti fólk sérstaklega að velta fyrir sér áður en það setur bílinn sinn í gang á morgnana. Það er til dæmis afskaplegur slæmur ávani að setja bíllinn í gang áður en maður fer út að skafa héluna af rúðunum og áður en börnin sem á að fara að skutla í skólann eða leikskólann eru sest inn. Í útblæstri bíla er slatti af varasömum lofttegundum og sóti, sérstaklega á meðan bílarnir eru kaldir. Hvarfakútar draga auðvitað mjög úr þessari mengun, en þeir virka ekki almennilega fyrr en ákveðnu hitastigi er náð. Bíll sem ræstur er á köldum morgni, kyrrstæður fyrir utan hús, myndar á skammri stundu ský af hættulegum lofttegundum, sem á það til að vera hvað þéttast einmitt í nefhæð barnanna.

 Hér gildir það sama og oft áður að vandamál heimsins eru ekki eins fjarri okkur og okkur hættir til að halda.