Utanríkisstefna VG verði að koma skýrar fram

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrsti varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að stefna Vinstri grænna í utanríkis- og alþjóðamálum verði að koma skýrar fram í stefnu ríkisstjórnarinnar. Ísland eigi hvorki að hafa innlendan né erlendan her og eigi alltaf að hafna stríðsátökum. 

Eins og fram hefur komið flutti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Alþingi skýrslu sína í dag um utanríkis- og alþjóðamál og stendur sú umræða enn.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, fyrsti varaformaður utanríkisnefndar, er önnur tveggja þingmanna Vinstri grænna sem ekki studdu málefnasamning ríkisstjórnarinnar og greiddu atkvæði með vantrausti á Sigríði Á. Andersen. Rósa Björk sagði í ræðu sinni að hún hefði viljað sjá enn metnaðarfyllri markmið stjórnvalda þegar kæmi að þróunarsamvinnu og uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna.

Hún ræddi öryggis- og varnarmál og stefnu Vinstri grænna. „Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan. Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. Þetta hefur verið stefna VG frá stofnun og verður að koma með einhverjum hætti skýrar fram í stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkis- og alþjóðamálum. Það getum við til að mynda gert sem herlaus þjóð, sem beitir sér ávallt með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir friðarumleitunum og talar skýrt gegn stríðsátökum.“
 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi