Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Utanríkisráðherra skilinn eftir á eyðieyju“

29.08.2019 - 09:58
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Þingfundur hófst klukkan 10:30 í Alþingishúsinu í morgun, á öðrum degi sérstaks aukaþings sem helgað er umræðu um þriðja orkupakkann svokallaða og þau þingmál sem tengjast honum.

Aukaþingið hófst í gærmorgun með fundi sem stóð óslitið frá 10:30 til klukkan átta í gærkvöldi. Margir þingmenn tóku til máls og ræddu um kosti og galla innleiðingar raforkuregluverks í íslensk lög.

 

 

Þingmenn Miðflokksins héldu sig innan ramma þess samkomulags sem þeir gerðu við stjórnarflokkana um þinglok í vor. Þá samþykktu þeir að tefja ekki störf þingsins með umræðum um þriðja orkupakkann á þessu sérstaka aukaþingi.

Í takt við samkomulagið eru mál tengd þriðja orkupakkanum á dagskrá í dag, en ekki umræður um þingsályktunina um þriðja orkupakkann sjálfan. Eina málið sem ekki tengist þriðja orkupakkanum og er á dagskrá í dag er umræða um tekjuskatt og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Dagskrá þingsins í dag

 • Kosning varaforseta í stað Jóns Þór Ólafssonar, þingmanns Pírata.
 • Umræða um raforkulög og Orkustofnun.
  Lagt er til að raforkueftirlit Orkustofnunar verði eflt með því að skýra nánar hlutverk og sjálfstæði Orkustofnunar þegar stofnunin sinnir eftirliti með aðilum á raforkumarkaði.

 • Umræða um breytingu á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
  Lagt er til að bætt verði við setningu í þingsályktunina að ekki verði lagður raforkustrengur milli Íslands og annars lands nema að undangengnu samþykki Alþingis.

 • Umræða um raforkulög.
  Lagt er til að bætt verði ákvæði við raforkulög þess efnis að um tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

 • Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.
  Lagt er til að höfundagreiðslur frá viðurkenndum samtökum rétthafa sem greiddar eru til höfunda og/eða annarra einstaklinga sem rétthafa verði skattlagðar sem eignatekjur (fjármagnstekjur) í stað launatekna. 

Á mánudag verða svo greidd atkvæði um þriðja orkupakkann og málin sem honum tengjast.