Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Utanlandsferðir og sundlaugar vinsælar

23.04.2019 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Hákon Halldórsson - RÚV
Fleiri fara í utanlandsferðir, færri ferðast innanlands og sundlaugar eru vinsælasta afþreyingin á landinu hjá Íslendingum samkvæmt niðurstöðum úr nýrri könnun um ferðalög Íslendinga á árinu 2018. Um 83% Íslendinga ferðuðust til útlanda í fyrra sem er fimm prósentustiga aukning frá árinu áður. Gistinóttum í útlöndum fjölgaði sömuleiðis um eina nótt á milli ára en Spánn og Portúgal voru vinsælustu áfangastaðirnir.

Um 85% Íslendinga ferðuðust innanlands í fyrra sem er einu prósentustigi meira en árið á undan en hlutfall þeirra sem ferðast innanlands hefur lækkað um tæp fjögur prósentustig frá árinu 2013.

Þá var spurt hvaða áform fólk hafði um ferðalög á árinu 2019 og svöruðu níu af hverjum tíu því til að hafa áform um ferðalög, þar af um helmingur sem stefndi að utanlandsferðum. 

Þegar kom að því að svara hvaða afþreyingu var algengast að Íslendingar greiddu fyrir á ferðum sínum um landið, sagðist rúmur helmingur greiða fyrir sundlaugarferðir. Næst á eftir komu söfn og sýningar en rúmur fjórðungur sagðist hafa greitt fyrir slíka afþreyingu.

Niðurstöður könnunarinnar byggja á svörum 1024 einstaklinga og var unnin í lok janúar af MMR og Ferðamálastofu. Í úrtaki hennar voru Íslendingar á aldrinum 18-80 ára valdir handahófskennt úr 18 þúsund manna álitsgjafahópi MMR.