Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Utangarðsbörn: Sækja ekki skóla mánuðum saman

15.03.2018 - 16:34
Róla á leikvelli.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Dæmi eru um að börn með einhverfu, geðrænan vanda og aðrar raskanir mæti ekki í grunnskóla svo mánuðum skipti, án þess að skólayfirvöld tilkynni barnaverndaryfirvöldum um það eða bregðist við. Þetta segir Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna. Þessi börn séu oft komin út í horn. Þeim líði illa í skólanum, höndli ekki áreitið eða verði fyrir einelti. Framkvæmdastjóri Skóla- og frístundasviðs borgarinnar segir að það verði aldrei hægt að mæta þörfum allra til fulls.

Sigurrós Á. Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls, samtaka sem þjónusta foreldra barna með sérþarfir, segir að stundum fái börnin góða þjónustu í skamman tíma, svo sé aðstoðin tekin frá þeim. 

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúv
Sigrún og Sigurrós hafa áhyggjur af börnum sem verða utangarðs í skólakerfinu.

„Þetta eru allt of mörg börn sem mæta ekki mánuðum saman,“ segir Sigurrós. Oft hafi skólarnir brugðist við með ýmsum ráðum áður en þetta gerist; skert stundaskrá eða minnkað hópa en það dugi ekki til. 

Ber að tilkynna barnaverndaryfirvöldum

Tilfellin sem rata inn á borð samtakanna eru mismörg eftir árum en ekki teljandi á fingrum annarrar handar. Þau eru fleiri en svo. Sigrún segir að þrátt fyrir að samskipti foreldra við skóla séu góð beri skólum að tilkynna barnaverndaryfirvöldum um fjarveru barns. Málin fari þá í réttan farveg þar. Börn eigi ekki að geta verið frá skóla, einangruð mánuðum saman án þess að brugðist sé við. „Ef um vanrækslu foreldra er að ræða er þetta auðvitað háalvarlegt mál en það þarf ekkert endilega að vera. Samt sem áður ber að fara eftir þeim ferlum sem eiga að vera virkir og eitt af því er að tilkynna til barnaverndarnefndar.“ Sigurrós bendir á að allir nemendur eigi rétt á kennslu við hæfi óháð líkamlegu eða andlegu atgervi. Hún segir að kannski séu alltaf skýringar. „Kannski er það þess vegna sem skóli tilkynnir ekki strax, foreldri hefur samband, lætur vita og svo framvegis. Hins vegar þegar þetta er orðið svona langur tími, nemandi félagslega einangraður heima og harðneitar að fara í skóla eða kemst ekki sökum veikinda, þá þarf að bregðast við því.“ 

Árið 2017 bárust barnaverndarnefndum 249 tilkynningar vegna erfiðleika barns í skóla eða þess að skólasókn barns var áfátt. Með þessu er átt við að barn mæti illa í skóla þrátt fyrir að foreldri reyni að stuðla að því að það geri það eftir bestu getu. Þá bárust 178 tilkynningar vegna vanrækslu á námi. Með því er átt við að ábyrgðin sé hjá foreldrum, barn mæti illa eða ekki en foreldrar láti það afskiptalaust. Þessi mál eru án efa mjög ólík en ef tilkynnt hefur verið um mál þeirra barna sem Sigurrós og Sigrún nefna ættu þau að heyra þar undir. 

Dæmi um að foreldrar neyðist til að halda tvö heimili

Þær nefna að stundum virðist skólinn vera að bíða eftir því að barnið komist inn í sérskóla eða annað úrræði. Svo komist barnið ekki þar inn og þá fyrst sé farið að huga að lausnum. Sigurrós segir stöðu barna með alvarlegan geðrænan vanda mjög slæma, Brúarskóli sé fullur og langir biðlistar á BUGL. Dæmi séu um að foreldrar í sambúð neyðist til að halda tvö heimili þar sem barnið er hættulegt sjálfu sér eða öðrum, annað foreldrið býr þá með því og hitt með hinum börnunum. „Hversu veikur þarftu að vera til að komast þarna inn,“ spyr hún og bætir við að það sé ekki alltaf hægt að lengja biðlista. 

„Í svona tilfellum, að skólinn svari, sem er náttúrulega rétt, við erum ekki heilbrigðisstofnun. Hvað á skólinn að gera í svona málum? Þarna er gríðarlegur vandi og þetta fer með heilu fjölskyldurnar, það er bara þannig.“ 

Frá skóla í þrjá mánuði - fær nú kennslu í tæpa þrjá tíma

Sigrún lýsir stöðu unglingspilts. Foreldrar hans leituðu til Einhverfusamtakanna. 

„Barn sem er í níunda bekk og var ekki í skóla, engri kennslu frá nóvember og fram í byrjun febrúar.“ 

Drengurinn er á einhverfurófi með ýmsar skynraskanir sem valda því að hann höndlar ekki að vera inni í almennum bekk. Það er of mikið áreiti í umhverfinu. Sigrún segir að í febrúar hafi skólinn búið til sérúrræði fyrir hann í öðru húsnæði. Þar sé honum kennt í fjórar kennslustundir á dag, rúmlega tvo og hálfan klukkutíma. Skólinn vonist til þess að í vor verði hægt að taka hann aftur inn í sinn heimaskóla en Sigrún telur ólíklegt að það gangi eftir. Drengurinn ætli ekki þangað, sé of brenndur af fyrri reynslu.

Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: RÚV
Drengnum hugnast ekki að mæta aftur í skólann.

Hugsanlega hafi fjarveran ráðið úrslitum

En hvað fór úrskeiðis? Sigrún segir að það hefði þurft að grípa inn mörgum árum fyrr, um leið og hann fór að finna fyrir vanlíðan. Hefði það verið gert væri drengurinn líklega enn í sínum heimaskóla. „Þarna brást skólakerfið fyrir mörgum árum. Það þarf að grípa inn í strax um leið og barn fer að finna fyrir vanlíðan og sýna hana á einhvern hátt, tala nú ekki um þegar það hættir að vilja fara í skólann.“ Hún segir að hugsanlega hafi fjarveran frá skólanum ráðið úrslitum um þá stöðu sem komin er upp. „Ég væri ekki hissa á því, það er erfitt að rífa sig upp og eiga að fara aftur inn í aðstæður sem voru erfiðar þegar maður er búinn að vera fjarverandi svona lengi.“ 

Stuðningur í leikskóla en hverfur oft í grunnskóla

Sigrún bendir á að oft fái börn mikinn stuðning í leikskóla. Svo fari þau í grunnskóla og þá segist stjórnendur ætla að sjá til, byrja með bekkinn eins og hann er og bæta við stuðningsfulltrúa síðar telji þeir þörf á því.

„Það vill oft verða til þess að það kemur eitthvað upp á og barnið fer í baklás.“ 

Þá skapist kannski vandi sem sé erfitt að vinda ofan af. Stuðningurinn ætti að hennar mati frekar að koma inn strax og svo ætti að minnka hann eftir því sem færni barnsins í því að vera inni í bekk eflist. Fjármagn til sérkennslu virðist ekki vera nægilegt að hennar sögn og hún hefur á tilfinningunni að það hafi lækkað. Þá skipti ekki öllu máli hvort barn sé með greiningar eða ekki því skólunum beri ekki skylda til þess að nýta það fjármagn sem fæst vegna barns með greiningar til þess að styðja við það barn.

Ekki hægt að veita öllum fullkomna þjónustu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Helgi segir að það hafi orðið framfarir.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar segir þetta snúast um það hvort barn fái þjónustu við hæfi eða ekki óháð greiningum.  Þeir sem veiti greiningar séu ekki endilega best til þess fallnir að segja til um hvaða þjónustu barn þurfi. Margir þeirra vinni ekki greiningu út frá vettvangi barns, það fari ekki fram raunfærni- eða samskiptamat á barni í skólanum heldur svari það eða foreldrar þess spurningalistum á stofu. Hann segir fjárveitingar til grunnskóla hafa hækkað mikið undanfarin ár, einnig þær sem eyrnamerktar eru almennri sérkennslu og sértækum stuðningi. Opnaðar hafi verið einhverfudeildir og þá sé nú verið að efla atvinnutengt nám, þar sem nemendur geti dvalið hluta skólavikunnar á vinnustað, sumir blómstri í þeim aðstæðum. 

Helgi segir að það verði aldrei hægt að tryggja að hver og einn nemandi fái þá þjónustu sem væri fullkomlega við hans hæfi. Það sé ótrúlega mikil breidd í samfélaginu, ólíkir einstaklingar með ólíka styrkleika, en skólarnir geri sitt besta. 

Allt það flókna mari í kafi

En hvers vegna kemur það fyrir að nemendur séu heima mánuðum saman? Helgi segir að það þurfi að skoða hvað liggi að baki, forsöguna. Fólk sjái bara toppinn á ísjakanum, að barnið sé ekki í skóla, en í kafi mari ótrúlega flókin mál, samspil félagslega kerfisins, barnaverndar, skólakerfis, heilbrigðiskerfis og heimilis. Oft hafi ýmislegt verið reynt. Unnið sé að því að gera betur og í hans huga höfum við sem samfélag náð framförum í að sinna börnum með hegðunarfrávik og raskanir. 

„Computer says no“

Sigurrós nefnir annað dæmi. Einhverfur nemandi með skynjunarvanda sem þolir illa skarkala fékk sérstakt úrræði í skólanum sínum, við það batnaði líðan hans, hann eignaðist vini og líf hans gjörbreyttist til hins betra.

„En, kerfið segir: Þetta er skammtímaúrræði. Það þýðir að barnið þarf að fara aftur inn í þessar aðstæður. Við gerum athugasemdir við það en það er ekki hægt að hagga kerfinu. Computer says no. Þegar við spyrjum hverjir ákveða þetta, er það sveitarfélagið eða skólinn, þá er það skólinn. Nú er staðan þannig að barnið er inni í þessum stóra hópi. Það er búið að setja skilrúm, þunnt skilrúm sem nær ekki upp í loft. Það heyrist allt, barnið er afstúkað, getur verið með heyrnarhlífar og svoleiðis en, barnið er orðið ómögulegt aftur.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Firesam - Flickr

Úr einum skóla í annan

Sigurrós þekkir dæmi þess að börn fllytjist endurtekið á milli skóla þar sem því líður illa, hafi kannski verið í fimm sex skólum á álíka mörgum árum. Oft séu þetta börn með greiningar sem teljast hátt standandi, eru með eðlilega eða háa greind. Þetta rót ætti að hennar mati að hringja viðvörunarbjöllum. Sumir senda börnin í einkaskóla, hún segir það ekki endilega betra þar sem þar sé ekki alltaf lögð sama áhersla á verkgreinar og sum börn séu sterkari í þeim greinum en á bókina. Það þurfi að hugsa um þarfir barnanna, ekki bara að kenna til samræmdra prófa, það þurfi líka að kenna lífsleikni og því um líkt. 

Sjúkrakennslu ábótavant

Hún nefnir líka sjúkrakennslu, hana þurfi að skoða. Það sé erfitt að fá kennara til að sinna henni, það þurfi að taka ákvörðun um hvað skuli kenna, hvort íslenska og stærðfræði séu nóg og skoða tímafjölda. Börn séu að fá örfáa tíma í sjúkrakennslu, fái þau hana yfir höfuð. 

Skólarnir henti ekki þessum börnum

Flest börn eiga að mati Sigrúnar heima í almennum skólum þó það eigi ekki við um öll. Hún segir skólana eins og þeir eru í dag ekki sérstaklega hentuga fyrir börn sem eiga erfitt í félagslegum aðstæðum eða eru með skyntruflanir. „Í sumum skólum eru opnar stofur, mörg börn í sama rými, mikil læti og okkar börn eru ekki að höndla þær aðstæður. Þá er þeim flækt á milli, kannski í einhverjar kompur á bak við til að kenna þeim í stað þess að vera með þau í smærri stofum, smærri hópum, í aðstæðum sem þau höndla. Þessu þarf að breyta og einnig vantar miklu meiri félagshæfnikennslu í skólunum.“

Viðbrögð strax

Þær leggja áherslu á að brugðist sé fyrr við ef barn sýnir merki um vanlíðan, félagskerfið, skólakerfið og heilbrigðiskerfið tali betur saman og hafi velferð barnsins að leiðarljósi. Í vissum tilvikum sé samráðsfundur nóg til að leysa vandann. Þær vilja að þjónusta sem börn fá á skólatíma verði öll á einum stað og starfsfólks skólans fjölbreyttara, það þurfi að vera talmeinafræðingar, þroskaþjálfar, sálfræðingar og iðjuþjálfar í skólunum enda komi það sér illa fyrir foreldra og þurfa að skutla og raskið sem fylgir reynist börnum með einhverfu erfitt. Þá vilja þær að fjárveitingar til skólanna verði auknar og kennurum gert kleift að koma til móts við þarfir hvers og eins. Það sé þeim ómögulegt eins og staðan er í dag. „Einstaklingsmiðun er ekki orð sem við eigum að nota bara á blaði heldur líka í verki, þetta er ekkert auðvelt hjá skólunum að vera með úrræði fyrir alla og hafa ekki nógu mikla fjármuni til að spila úr. Við hins vegar verðum að þrýsta á kerfið áfram til þess að þessum börnum okkar líði vel í skólanum á þessum mótunarárum. Mér finnst líka vanta að starfsfólk skólanna, skólastjórar og kennarar standi upp og segi: Þetta er ekki hægt, við getum ekki látið þetta lafsa, við þurfum að bregðast við,“ segir Sigurrós. 

Mikið breyst til betri vegar

En þarf að gjörbylta kerfinu svo skólarnir geti mætt öllum börnum? Ekki endilega segir Sigurrós, skólarnir hafi þegar breyst mikið, fólk sem standi utan þeirra átti sig kannski ekki á því. Sigrún segir að víða gangi vel, margir skólar séu til fyrirmyndar, kennarar þaðan þyrftu kannski að halda námskeið fyrir hina. „Svo er annað, þetta stendur allt og fellur með einstaklingunum. Þú getur verið með skóla sem stendur sig frábærlega, bekk þar sem einstaklingurinn blómstrar, svo er skipt um einn eða tvo aðila, stjórnanda og kennara og allt kerfið hrynur. Þetta byggir alfarið á fólkinu og viðhorfin til barnanna, börnin okkar eru ekkert vandamál, þetta eru einstaklingar sem þurfa þjónustu við hæfi.“ 

Þær benda á að foreldrar í vanda geti leitað til Sjónarhóls og Einhverfusamtakanna og fengið ráðgjöf án endurgjalds. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV