Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Út fyrir ystu brún á Bolafjalli

08.02.2019 - 02:48
Mynd:  / 
Bæjarstjórinn í Bolungarvík er sannfærður um að útsýnispallur á Bolafjalli verði nýr ferðamannasegull á Vestfjörðum. Sextán hönnunarhópar vildu fá að hanna útsýnispallinn og hefur vinningstillagan nú verið kynnt almenningi og kallast Út fyrir ystu brún,

Keppnin var auglýst í september og voru þrír hópar valdir af handahófi til að skila inn tillögum að útsýnispalli.

Unnið á Indlandi og á Íslandi

Vinningstillöguna eiga Landmótun, Sei arkitektar og Argos, með ráðgjöf frá S Saga verkfræðingi en tillagan var unnin á bæði Indlandi og Íslandi. „Okkur fannst mikilvægt að bæta við landslagið sem fyrirer þannig að virði þess aukist og fólk geti upplifað Bolafjall alveg á nýjan hátt. Þetta á að vera viðbót sem tekur ekki frá því dramatíska landslagi sem að fjallið er,“ segir Shruthi Basappa, arkitekt hjá Sei.

Mynd með færslu
 Mynd:
Vinningshafar: Jóhann Sindri Pétursson og Aðalheiður E. Kristjánsdóttir hjá Landmótun, Shruthi Basappa og Einar Hlér Einarsson hjá Sei

Líka fyrir þá sem kikna í hnjánum

Bolafjall fyrir ofan Bolungarvík og á toppinn liggur vegur því þar er ratsjárstöð. Það er yfir 600 metra hátt. Vinningstillagan gerir ráð fyrir yfir 60 metra löngum palli meðfram bjargbrúninni, að neðanverðu, sem hallar þrjár gráður niður á við. Svo skarar endinn út frá brúninni, 4-6 metra. Þá var útfærð aðkoman að pallinum. „Það á að gefa okkur hinum sem að kiknum í hnjánum, um leið og við komum þarna upp, tækifæri til að labba þarna meðfram fjallsbrúninni, og svo eru einstakir áningastaðir sem þú hefur til að styðja þig við án þess að þurfa að fara alveg fram á brún,“ segir Aðalheiður Erla Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt hjá Landmótun.

Pallurinn ekki aðalatriðið í landslaginu

Álit dómnefndar var að tillagan væri látlaus en sterk hugmynd sem virði umhverfið. „Þannig að maður fær þessa undra tilfinningu að náttúran yfirgnæfi þig þegar þú ert á staðnum en á sama tíma að það sé ekki pallurinn sem er aðalatriðið heldur fjallið, náttúran og útsýnið sem er aðalatriðið og þessi tillaga sameinar það allt,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur og formaður þriggja manna dómnefndar.

Mynd með færslu
 Mynd:

Þarf að hugsa svolítið geggjað

Bærinn hyggst sækja um styrk í framkvæmdasjóð ferðamannastaða en það er ljóst að kostnaður hleypur á tugum milljóna, jafnvel yfir hundrað. „Ég er sannfærður um það að þetta verður einn af seglum Vestfjarða í ferðaþjónustu,“ segir Jón Páll. „Og við erum sannfærð um að geta fjármagnað þetta verkefni. Og svo er það bara þannig að ef maður ætlar að gera geggjaða hluti þá þarf maður að vera svolítið geggjaður í hugsun og við ætlum að láta þetta verða að veruleika. Það er alveg klárt,“ segir Jón Páll.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður