Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Úrslitin eru krafa um breytingar

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Eyþór Arnalds leiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjavík segir að úrslitin í borgarstjórnarkosningunum sýni að Reykvíkingar vilji breytingar í stjórn borgarinnar.

Ekki ákall um nýtt hjól undir gamlan meirihluta

„Klárlega er þetta krafa um breytingar" segir Eyþór. „Bæði það að við sem töluðum fyrir breytingum - við vorum með slagorðið  Breytum borginni -  við mælumst þarna stærsti flokkurinn. En ekki síður hitt að við erum að sjá nýja flokka og nýjar raddir koma fram og fá stuðning. Og síðast en ekki síst að meirihlutinn er fallinn. Ég hafði alltaf þessa tilfinningu innan í mér að hann myndi gera það þegar á hólminn væri komið og málefnin yrðu rædd. Og þessar breytingar verða að eiga sér stað. Dagur er nú búinn að leiða tvær borgarstjórnir sem báðar hafa fallið og ég held að borgarbúar séu ekki að kalla eftir því að það komi enn eitt hjólið undir þennan vagn". 

Flókið að mynda nýjan meirihluta

„Það er ekki einfalt fyrir neinn að mynda meirihluta og ég held að allir verði að slá af sínum kröfum og vinna saman. Ég hef sagt að ég er tilbúinn til þess að vinna með þeim sem horfast í augu við vandamálin og fari í lausnirnar. Ég óttast það ekki. Ég hef átt gott samstarf við aðra flokka í Árborg þó ég hafi verið með hreinan meirihluta. Ég held að við séum rétti aðilinn til þess að leiða slíkan meirihluta".

Hvert myndir þú leita fyrst?

„Til þeirra sem eru tilbúnir að fara í breytingar og viðurkenna vandann. Nýju framboðin eru öll að tala á þessa lund. Þau eru að tala fyrir breytingum, að það þurfi að laga ákveðna hluti í kerfinu. Við viljum gera það á næstu fjórum árum árum og við erum tilbúin í það" segir Eþór Arnalds. 

Vill breiðan meirihluta með ólíku fólki

Dagur B. Eggertsson leiðtogi Samfylkingarinnar útilokar ekki nýjan meirihluta í borginni þar sem fyrri meirihluti komi við sögu. „Ég hef sagt alla kosningabaráttuna að meirihlutasamstarfið sem við höfum verið í hefur gengið mjög vel og hvergi fallið skuggi á það. Þannig að ég hef horft til þeirra flokka, en líka fleiri sem telja sig eiga samleið með okkur. Við vorum í fjögurra flokka samstarfi þó að við hefðum í raun bara þurft að vera í þriggja flokka. Þannig að mér finnst spennandi að hugsa til þess að það verði svolítið breiður meirihluti með ólíku fólki í kringum borðið að því gefnu að stóra myndin, þar sem framtíðarsýnin sé sameiginleg.“
 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV