Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Úrslit kosninganna skýr skilaboð

01.07.2012 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson telur ótvíræð úrslit forsetakosninganna sýna vilja fólksins í landinu til þess að lýðræðið þróist með þeim hætti að það fái í auknum mæli tækifæri til að kveða upp um hin stærstu mál, með þjóðaratkvæðagreiðslum.

„Ég tel að allir þeir sem eru á kjörnum vettvangi, trúnaðarmenn sem bjóða sig fram, þurfi að átta sig á lærdómi þessara kosninga. Óháð mér sem persónu, er undiraldan í sigri mínum fyrst og fremst afgerandi stuðningur við þessa þróun.“

Segir Ólafur Ragnar Grímsson. Hann segir að úrslit kosninganna séu skilaboð kjósenda um að þjóðin sé herra landsins, en ekki ráðherrar, Alþingi eða aðrar stofnanir. Þjóðin hafi séð í fyrsta skiptið með skýrum hætti í Icesave-kosningunum að stjórnskipun landsins sé byggð á þann veg.

„Og ég held að þeir ráðamenn, sem ekki gera sér grein fyrir þessum skilaboðum kosninganna, muni fara villu vegar.“

Ólafur lítur ekki á úrslit kosninganna sem persónulegan sigur fyrir sig. Heldur myndbirtingu grundvallarbreytingar á vilja fólksins til að hafa áhrif. Hann segist hafa fundið afdráttarlausan vilja fólksins til að forsetinn deili með þjóðinni viðhorfum sínum og hugmyndum um hin stærstu mál.

Ólafur segir mikið vantraust þjóðarinnar til Alþingis vera áhyggjuefni, og mikilvægt sé að traustið verði endurreist.

„Hugsum okkur það ef 90% þjóðarinnar treystu ekki Hæstarétti. Þá myndi þjóðin fljótlega hætta að fara eftir úrskurðum Hæstaréttar. Ein af ástæðum fyrir því í þessum kosningum að það var sífellt verið að ræða hvort forsetinn legði fram lög og svo framvegis, var þetta vantraust á Alþingi. Þess vegna líta margir til forsetans í síauknum mæli, að hann taki að sér það verkefni að hjálpa þjóðinni í gegnum umræður um hin stærstu mál, hvort sem það sé Evrópusambandið eða stjórnarskrármálið eða önnur stór mál, en sitji bara ekki til hlés og horfi þegjandi upp á skakið í öðrum stofnunum og vandræðaganginn ráða för.“