Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Úrslit aukakosninga styrkja Theresu May

24.02.2017 - 16:04
epa05421417 British Home Secretary Theresa May waves on her arrival at Number 10 Downing Street to attend the last Cabinet Meeting hosted by British Prime Minister David Cameron in Westminster, central London, Enngland,12 July 2016. British Prime Minister
 Mynd: EPA
Breski Íhaldsflokkurinn vann sögulegan sigur í aukakosningum til þings í gær er frambjóðandi flokksins var kjörinn í þingsæti sem Verkamannaflokkurinn hafði haldið í 82 ár. Kosið var í tveimur kjördæmum sem Verkamannaflokkurinn hefur haldið mjög lengi. Í Copeland í Norðvestur-Englandi vann Íhaldsflokkurinn, en Verkamannaflokknum tókst að standa af sér harða atlögu Breska sjálfstæðisflokksins, UKIP, í aukakosningum í Stoke

Áfall fyrir Verkamannaflokkin og UKIP

Fréttaskýrendur eru sammála um að úrslitin í gær séu áfall fyrir Verkamannaflokkinn og mikill sigur fyrir Íhaldsflokkinn og leiðtoga hans, Theresu May, forsætisráðherra. Hún var enda kampakát í dag og sagði úrslitin sanna að stjórn hennar væri stjórn allra landsmanna og landshluta.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagðist ekki íhuga afsögn, hann hefði verið kjörinn til að berjast gegn óréttlátri stjórn og héldi því áfram. Paul Nuttall, sem aðeins hefur verið leiðtogi UKIP í þrjá mánuði, var í framboði fyrir flokkinn í Stoke. Þar var mikill stuðningur við úrsögn úr Evrópusambandinu, helsta baráttumál UKIP. Þrátt fyrir það tókst Nuttall ekki að vinna þingsætið af Verkamannaflokknum.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV