Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Úrskurðaðir í farbann eftir hættuleg slagsmál

04.11.2018 - 23:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Norðurlands eystra féllst í dag á kröfu lögreglunnar nyrðra um farbann yfir tveimur starfsmönnum PCC á Bakka við Húsavík, sem grunaðir eru um hættulega líkamsárás hvor á annan. Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri voru mennirnir færðir fyrir dómara í Héraðsdómi Norðurlands eystra í kvöld, og úrskurðaði hann tvímenningana í þriggja mánaða farbann. Voru þeir látnir lausir að svo búnu.

Samkvæmt tilkynningu lögreglu fyrr í dag kom til átaka milli mannanna í vistarverum þeirra við verksmiðjuna seinnipartinn í gær. Voru þeir fluttir hvor í sínum sjúkrabílnum til Akureyrar, þar sem þeir fengu viðeigandi aðhlynningu á Fjórðungssjúkrahúsinu. Annar þeirra þurfti ekki mikla aðhlynningu og var handtekinn strax í gærkvöld en hinn, sem var lagður inn á sjúkrahúsið, var handtekinn þegar hann útskrifaðist þaðan í dag.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV