Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Urriðinn á uppleið, lax og bleikja í jafnvægi

11.07.2019 - 02:30
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
45.291 lax veiddist á stöng í íslenskum laxveiðiám á síðasta ári. Þar af var 19.409 löxum sleppt aftur, eða nær 43 prósentum veiddra laxa, og því var heildarfjöldi landaðra laxa 25.882. Þetta kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um lax- og silungsveiðina árið 2018. Samkvæmt þessu hélst laxveiðin nær óbreytt milli áranna 2017 og 2018, en 2016 veiddust hins vegar ríflega 53.300 laxar í íslenskum ám. Töluvert meira veiddist af urriða 2018 en árið áður, en bleikjuaflinn var nánast óbreyttur.

Nær 80 prósent veiddra laxa voru smálaxar með eins árs sjávardvöl að baki, en rétt ríflega 20 prósent voru stórlaxar, sem verið höfðu tvö ár eða lengur í sjó. Heildarþyngd landaðra laxa í stangveiði var 68,8 tonn í fyrra, þar af voru smálaxarnir rúmlega 53,6 tonn en stórlaxar tæplega 15,2 tonn.

Rangárnar veiðihæstar

Rangárnar voru lang-veiðihæstu laxveiðiárnar í fyrra, 4,039 laxar veiddust í Ytri-Rangá en 3.960 í Eystri-Rangá. Næst kom Miðfjarðará, þá Þverá og Kjarrá og Norðurá er í fimmta sæti. Listinn yfir veiðihæstu árnar og fjölda veiddra laxa í hverri þeirra lítur annars svona út:

  1. Ytri-Rangá, Hólsá Vesturbakki - 4.039 laxar
  2. Eystri Rangá - 3.960 laxar
  3. Miðfjarðará - 2.725 laxar
  4. Þverá og Kjarrá - 2.441 lax
  5. Norðurá - 1.692 laxar
  6. Langá - 1.632 laxar
  7. Haffjarðará - 1.491 lax
  8. Selá í Vopnafirði - 1.326 laxar
  9. Þjórsá - 1.210 laxar
  10. Laxá í Dölum - 1.205 laxar

Urriðinn á uppleið

Urriðaveiði hefur verið á uppleið síðustu fjögur ár, segir í skýrslunni, og í fyrra veiddust tæplega 42.000 slíkir í ám og vötnum landsins, flestir í Veiðivötnum, eða 10.330. Þá veiddust tæplega 28.000 bleikjur árið 2018, sem er svipað og árið áður. Þriðjungi veiddra urriða var sleppt aftur, en innan við 16 prósent veiddra bleikja fengu að synda sína leið. 

Skýrslu Hafrannsóknastofnunar má lesa hér.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV