Úrræðin ná einnig til stóreignafólks

10.05.2014 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Meira en 400 fjölskyldur sem eiga meira en hundrað milljónir króna í hreinni eign, en eru með íbúðalán, geta nýtt sér úrræði ríkisstjórnarinnar til handa heimilanna. Þessi hópur getur nýtt samtals um 600 milljónir af séreignasparnaði, skattfrjálst.

Í svari Ríkisskattstjóra við fyrirspurn Alþingis kemur fram að 426 fjölskyldur eiga meira en hundrað milljónir króna í hreinni eign, en eru með íbúðalán. Þessi hópur getur nýtt sér úrræði ríkisstjórnarinnar um séreignasparnað. Ef hver fjölskylda nýtir sér séreignasparnaðinn, að upphæð einni og hálfri milljón króna, gera það samtals 639 milljónir króna. Þá eru 3.645 fjölskyldur sem eiga meira en 50 milljónir umfram skuldir.

Í gögnum Ríkisskattstjóra kemur fram hver eignastaða og skuldastaða fjölskyldna í landinu er. Þar kemur fram að 18.520 fjölskyldur eru með neikvæða eignastöðu, en 45.992 fjölskyldur eru með jákvæða eignastöðu. Langstærstur hluti aðgerðanna fer því til fjölskyldna sem skuldar minna en þær eiga.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hvert heimili geti nýtt séreignasparnað, í mesta lagi eina og hálfa milljón, til að greiða niður höfuðstól lána. Samkvæmt breytingatillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis er gert ráð fyrir að breyta þessu þannig að hjón geti samtals nýtt sér úrræðið að hámarki 2,25 milljónum króna.

[email protected]

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi