Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Úrgangur hleðst upp á Everest

04.03.2015 - 03:36
Erlent · Asía · Everest
Mynd með færslu
 Mynd:
Rusl og úrgangur sem fjallgöngumenn á leið á tind Everest skilja eftir sig ógnar bæði umhverfinu og heilsu manna segir Ang Tshering ,formaður Nepalska fjallgöngusambandsins. Hann hefur biðlað til stjórnvalda í Nepal að grípa til aðgerða vegna mengunar á fjallinu.

Engin klósett í tjaldbúðunum
Tshering segir úrganginn hlaðast upp, sérstaklega í grennd við tjaldbúðirnar fjórar sem eru á milli grunnbúðanna, sem er í 5300 metra hæð, og tindsins, sem er í 8850 metra hæð. Engin klósett eru í þessum búðum. Flestir grafa holu fyrir úrgang sinn en einhverjir eru með þar til gerða poka meðferðis.

Göngutímabilið hafið
Um 700 manns, bæði fjallgöngumenn og leiðsögumenn, reyna við Everest, hæsta tind heims, á ári hverju. Göngutímabilið eru þrír mánuðir. Það hófst í síðustu viku og stendur yfir fram í maílok. 

Fjallgöngumenn eru vikum saman á fjallinu. Aðbúnaður í grunnbúðunum er nokkuð betri en á leið upp fjallið og þar eru kamrar fyrir úrgang.

Eftirlit með rusli í grunnbúðunum
Puspa Raj Katuwal, sem leiðir fjalladeild Nepölsku ríkisstjórnarinnar, segir að ekki hafi enn verið rætt um það hvað sé hægt að gera til að draga úr úrgangi á fjallinu. Hins vegar hafi ríkið gripið til aðgerða til þess að draga úr rusli en strangt eftirlit verður í grunnbúðunum og fylgst með því að farið verði eftir reglum um rusl.

Þurfa að taka 8 kíló af rusli með niður
Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin reglugerð sem á að takmarka rusl á fjallinu. Greiða þarf 4000 bandaríkjadali í tryggingu áður en haldið er á tindinn. Hver fjallgöngumaður þarf svo að hafa 8 kíló af rusli meðferðis í grunnbúðirnar eftir leiðangurinn toppinn, sem er um það bil það rusl sem hann skilur eftir sig í ferðinni.