Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Urðunarsvæðinu lokað árið 2021

18.02.2019 - 14:35
Mynd:  / 
Loka á urðunarsvæðinu í Álfsnesi þann 1. janúar 2021. Ekki er kominn nýr urðunarstaður en á næsta ári á að taka í notkun nýja gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi. Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir að sú stöð muni ekki bjarga öllu. „En hún mun taka það sem er í gráu tunnum íbúa hér á höfuðborgarsvæðinu.“ Áfram eykst úrgangur milli ára og tók Sorpa við tæplega 13% meiru árið 2018 en árið á undan. Stærsti hlutinn er úrgangur frá fyrirtækjum.

Myndin af fyrirhugaðri gas- og jarðgerðarstöð er fengin af vef Sorpu.

Nýju sorpstöðina á að afhenda í febrúar á næsta ári. „Við erum þá að taka þarna um 35 þúsund tonn af heimilisúrgangi sem fer þá þarna í gegn og hættir að fara í urðun, og það er nú stór slatti af því sem er að fara upp í Álfsnes. Við munum líka geta tekið eins úrgang frá fyrirtækjum,“ sagði Björn í Samfélaginu á Rás 1.

Í verksmiðjunni verður framleitt metan og jarðvegsbætir. „Síðan verður til hrat sem hægt er að losna við erlendis; fast eldsneyti sem hægt er að nota í sementsverksmiðju eða jafnvel í brennslu til orkuframleiðslu.“

Stór hluti er byggingarúrgangur

Sé farið nokkur ár aftur í tímann, til ársins 2014 þegar úrgangur fór að aukast aftur eftir hrun, má sjá að tekið var á móti 62% meiri úrgangi á síðasta ári en það ár. Úrgangur sem Sorpa tekur á móti hefur aukist úr rúmum 160.000 tonnum í rúm 260.000 tonn á tímabilinu. Eitthvað virðist þó vera að draga úr aukningunni því ef tölur í desember 2018 eru bornar saman við sama mánuð árið 2017 sést að magnið dregst saman um 6,5% milli ára.

Björn segir sorpmagnið mælikvarða á það sem er að gerast í samfélaginu. 67% úrgangi eru frá fyrirtækjum og samkvæmt Birni er stór hluti byggingarúrgangur. „Frá 2014 hefur til dæmis magnið af úrgangi í tunnunum hjá íbúum ekki aukist nema um 2,5%. Íbúarnir eru að flokka betur og aukningin er ekki í gráu tunnunni heldur annars staðar, þótt hún geti komið frá heimilum líka, til dæmis sem húsgögn eða annað. En stærstur hluti af þessu er fyrirtækjaúrgangur.“

Urðum frekar en brennum

Heildarmagn baggaðs úrgangs til urðunar helst svipað milli ára. Eftirlitsaðilar frá Evrópu hafa verið að gera athugasemdir við að við séum að urða of mikið af úrgangi og Björn segir að þarna sé ákveðinn hluti úrgangs sem erfitt sé að finna lausnir fyrir. „Ein ástæða fyrir því að Íslendingar urða meira en gengur og gerist í Evrópu er vegna þess hvernig orkumarkaðurinn er þar erlendis. Hérna er nánast ekki hægt að notast við brennslustöð til að keppa við vatnsafl eða jarðvarma. Það er kannski helsta ástæðan fyrir því að menn hafa frekar farið þá leið að urða en að brenna. Nú er bara ein brennslustöð á Íslandi, á Suðurnesjum, það er búið að leggja aðrar af.“

„Brennsla er bara dýr leið, því miður. Það breytir því ekki að við þurfum að eiga aðgang að brennslu hér til að brenna úrgang sem við myndum aldrei geta flutt út. Til dæmis skólphrat úr skólphreinsistöðvum eða kamfýlóbakter- eða salmónellusmitaðan kjúkling, sjúkrahúsúrgang. Við þurfum að hafa aðgang að þessari lausn.“

Ekkert einfalt svar við plastinu

Um þrjátíu þúsund tonn af plasti eru urðuð uppi í Álfsnesi, en rúmlega tuttugu þúsund tonn af því eru frá fyrirtækjum, segir Björn. „Við höfum áætlað að heimilisplast frá höfuðborgarsvæðinu sé einhvers staðar á bilinu sex til níu þúsund tonn sem fellur til af umbúðum. En svo er plast nánast alls staðar. Þarna væri kannski frekar tækifæri til þess að gera eitthvað meira.“ Fyrirtæki geti skoðað hvort ekki sé hægt að gera betur.

Björn sagði jafnframt að verið væri að kanna þann möguleika að framleiða dísilolíu úr plastúrgangi. „En við þurfum að fara í gegnum þessa umræðu og skoða hvað er hentugast fyrir okkur að gera. Umbúðaplasti, þar sem öllu ægir saman, er verulega erfitt að koma í endurvinnslu. Svíar gerðu könnun á samsetningu heimilisplasts fyrir ekki löngu síðan. Þá kom í ljós að 45% plastsins má kannski endurvinna með góðu móti. 25% minnir mig er erfitt að endurvinna og 30% er ekki hægt að endurvinna. Það er eiginlega ekki hægt að leggja það á íbúana að flokka niður í svo marga flokka, það er bara tæknilega ekki hægt.“ Þegar komi að plastinu sé ekki til neitt einfalt svar.

Auður Aðalsteinsdóttir