Urðu af þremur milljörðum vegna riftunar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum varð af þriggja milljarða króna hagnaði vegna þess að ríkið rifti samningi um einkaleyfi á leið númer 55, sem ekur á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins. Þetta er mat dómkvaddra matsmanna héraðsdóms. Niðurstaða þeirra var kynnt sveitarstjórnarfólki á Suðurnesjum á aðalfundi sambandsins um síðustu helgi.

Greint er frá málinu á vef Víkurfrétta. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, SSS, samdi við ríkið í febrúar 2012 um einkaleyfi á nokkrum akstursleiðum, þar á meðal á leiðinni til og frá Keflavíkurflugvelli. „Í þeim samningi voru ákvæði um að við skyldum keyra í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hafa ferðir í boði allan sólarhringinn,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS. Þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, tilkynnti sambandinu bréfleiðis í desember 2013 að einkaleyfi á leiðinni til og frá flugvellinum yrði fellt úr gildi. 

Telja riftun ríkisins ólögmæta

Þrátt fyrir samning um einkaleyfi kom þó aldrei til þess að SSS væri eitt um að bjóða upp á ferðir á þessari leið. Berglind segir að á þeim tíma hafi ekki verið nein viðurlög við því að aka á leið þar sem einkaleyfi hefur verið úthlutað. Viðurlög við því séu þó komin í lög í dag. SSS bauð áfram upp á ferðir á þessari leið í samkeppni við önnur fyrirtæki. 

SSS taldi riftun ríkisins á samningnum ólögmæta og höfðaði því mál sem þingfest var í október 2015. „Við ákváðum að höfða mál gegn ríkinu þar sem við töldum að það hafi ekki verið lagaheimild fyrir þessari breytingu á samningnum. Þar að auki töldum við sambandið hafa orðið fyrir töluverðu tjóni vegna þessa,“ segir Berglind.

Segir áhrif á samgöngur á Suðurnesjum mikil

Riftun ríkisins hafði mikil áhrif á samgöngur á Suðurnesjum, að sögn Berglindar. Það, að taka þennan legg út úr einkaleyfinu, sé álíka og að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu myndu missa einkaleyfi á leið 1 úr sínu kerfi. Þau hafi misst út einkaleyfi á þeirri leið sem mestar tekjur eru af. Eftir standi einkaleyfi um akstur á leiðum sem mun minni hagnaður er af. Afleiðingarnar séu þær að verð á öðrum leiðum sé nokkuð hátt miðað við það sem gerist annars staðar á landinu. „Við höfum ekki getað lækkað verð eins og við myndum vilja. Það hefur þurft að sníða stakk eftir vexti og við höfum ekki getað boðið upp á eins góða þjónustu og við hefðum annars getað ef samningnum hefði ekki verið rift.“

SSS ætlar ekki að bjóða upp á ferðir áfram að óbreyttu

Ríkislögmaður fékk mat matsmannanna í hendur um síðustu mánaðamót. „Þetta er mál sem þarf að leysa í samstarfi við Vegagerðina og ríkið. Við vildum gjarna leysa það utan dómstóla en það fer fyrir dóm ef sátt næst ekki með öðrum hætti,“ segir Berglind.

Samningur SSS við ríkið um samgöngur á Suðurnesjum rennur út um áramótin. Berglind segir að sambandið hafi ekki hug á að standa áfram að almenningssamgöngum þar sem framlag ríkisins sem fylgi dugi engan veginn til. „Við vitum ekki hvað gerist um áramót og erum satt best að segja uggandi því að þetta er þjónusta fyrir okkar íbúa sem margir treysta á.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi