Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Úr knattspyrnugoðsögn í tilvonandi forseta

13.10.2017 - 04:50
epa05281894 Former Liberian soccer player and current Senator George Weah smiles after addressing thousands of supporters of the Congress for Democratic Change (CDC) party who petitioned him to contest Liberia's Presidential elections in 2017, at
George Weah. Mynd: EPA
George Weah, fyrrverandi knattspyrnustjarna og núverandi öldungadeildarþingmaður í Líberíu, er með gott forskot á keppinaut sinn í forsetakosningunum þar í landi. Samkvæmt útreikningum Bloomberg fréttastofunnar hefur hann hlotið rúmlega 39 prósent atkvæða, en helsti keppinautur hans, varaforsetinn Joseph Boakai, hefur hlotið tæp 31 prósent. Kosið verður á milli þeirra tveggja í nóvember, en yfir helming atkvæða þarf til þess að verða kjörinn forseti í Líberíu.

Gengið var til kosninga í Líberíu eftir að Ellen Johnson Sirleaf ákvað að nóg væri komið eftir tólf ár í embætti. Hún var fyrsta konan til að verða lýðræðislega kjörinn forseti í Afríku. 

Weah er talinn líklegastur til þess að taka við Sirleaf. Hann er þjóðhetja í heimalandinu eftir farsælan knattspyrnuferil á tíunda áratug síðustu aldar. Hann var kjörinn besti leikmaður heims á vegur Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, árið 1995 og hlaut gullknöttinn sama ár, sem eru verðlaun íþróttafréttamanna. Þrisvar var hann valinn besti leikmaður Afríku og þá var hann valinn besti leikmaður síðustu aldar í Afríku árið 1996. Tímaritið World Soccer valdi hann einn af 100 bestu leikmönnum allra tíma og það sama gerði Pelé fyrir hönd FIFA árið 2004.

Hann tók þátt í forsetakosningunum árið 2005 en laut þá í lægra haldi fyrir Sirleaf. Fjórum árum síðar bauð hann sig fram í þingkosningum í fulltrúadeild líberíska þingsins fyrir hönd Montserrado-sýslu. Árið 2014 bauð hann sig fram til sætis í öldungadeildinni, þar sem Robert Sirleaf, sonur forsetans, var mótframbjóðandinn. Weah hafði betur og hefur setið í öldungadeildinni síðan.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV